Stjórnvöld styrki fæðingarorlofskerfið

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sambandsstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að grípa strax til aðgerða til að styrkja fæðingarorlofskerfið. Núverandi kerfi skapi foreldrum ekki nægilegt fjárhagslegt öryggi og margir foreldrar, þá sérstaklega feður, sjá sér ekki fært að taka fæðingarorlof vegna þeirrar tekjuskerðingar sem fylgi því.

„Tölur síðustu ára um töku fæðingarorlofs staðfesta þetta. Sambandsstjórn RSÍ lýsir yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og telur mikilvægt að gripið sé til myndarlegra aðgerða tafarlaust. Fyrstu mánuðir eftir fæðingu eru gríðarlega mikilvægir, bæði fyrir börn og foreldra. Auk þess er fæðingarorlofskerfið eitt besta tækið sem við höfum til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og á heimilinu. Sambandsstjórn leggur höfuðáherslu á að tekjuviðmið verði hækkað svo það endurspegli laun á vinnumarkaði,“ segir ennfremur.

Fram kemur að á fundi sambandsstjórnar 30. apríl hafi verið samþykktar breytingar á reglum styrktarsjóðs Rafiðnaðarsambandsins og sett inn heimild til að styrkja foreldra í fæðingarorlofi. „Sambandsstjórn vonar að þessi styrkur muni að einhverju leyti koma til móts við tekjuskerðingu foreldra og hvetja jafnframt fleiri feður til þess að nýta sér fæðingarorlof, en karlmenn eru stór meirihluti félagsmanna í RSÍ. Sambandsstjórn er þó þeirrar skoðunar að það sé hlutverk ríkisins að sjá til þess að foreldrar geti eytt fyrstu mánuðum eftir fæðingu  með börnum sínum án þess að lenda í fjárhagsörðugleikum.“

Þá segir að lokum að íslenska fæðingarorlofskerfið hafi lengi vel verið til fyrirmyndar og eitthvað sem aðrar þjóðir hafi litið til. „Eftir hrun hefur kerfið ekki verið svipur hjá sjón vegna gríðarlegs niðurskurðar. Nú þegar efnahagsástandið hefur batnað og sameiginlegir sjóðir standa betur, m.a. vegna minna atvinnuleysis, ættu stjórnvöld að setja í forgang að endurreisa kerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert