Vilja ekki lundabúð í Ásmundarsal

Myndlistarmenn eru uggandi vegna áforma um að selja eigi Ásmundarsal við Freyjugötu þar sem Listasafn ASÍ hefur verið. Húsið sé sérhannað fyrir myndlistarstarfsemi og það hafi verið ósk Ásmundar að svo yrði áfram.

Safnið segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður sambandsins, að hafi gegnt mikilvægu hlutverki undanfarin ár. Þar hafi listamenn getað komið með hugmyndir að sýningum og viðburðum sem sé ekki algengt á meðal íslenskra listasafna. 

Húsið var byggt árið 1933 af Ásmundi Sveinssyni, myndhöggvara, en það var teiknað af Sigurði Guðmundssyni. Þar sem það er byggt eftir 1930 fellur það ekki undir lög um menningarminjar og það er ekki friðlýst. 

mbl.is ræddi við Jónu Hlíf sem vill að ríki og borg komi að því að kaupa húsið en Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, segir borgina hafa ekki myndað sér afstöðu til þeirrar stöðu sem sé komin upp.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem húsið fer á sölu því árið 1978 keypti Arkitektafélagið húsið af ættingjum Ásmundar og árið 1995 var það svo selt ASÍ og hefur það hýst safn þess sem inniheldur verk eftir flesta af helstu myndlistarmönnum þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert