Vilja heyra í þeim sem fá kröfubréf

Frá mótmælum vegna Hlíðamálsins svokallaða.
Frá mótmælum vegna Hlíðamálsins svokallaða. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir lögmenn skora á alla þá sem fengið hafa eða koma til með að fá kröfubréf vegna ummæla sinna í tengslum við Hlíðamálið svokallaða að hafa samband við sig án tafar.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tveggja karlmanna sem kærðir voru fyrir nauðgun en mál þeirra felld niður, sendi tuttugu og tvö kröfubréf á laugardaginn og gaf fresti til miðnættis í kvöld til að verða við kröfum mannanna.

Lögmennirnir Sigrún Jóhannsdóttir og Jóhannes S. Ólafsson segja það sem fram kemur í bréfunum vekja upp nokkrar spurningar.

Í tilkynningu frá þeim, sem mbl.is hefur undir höndum, gera þau meðal annars athugasemd við framsetningu bréfanna og tímafresti ásamt því að velta fyrir sér hvort mennirnir tveir séu í stakk búnir fjárhagslega til að takast á við dómsmálin tuttugu og tvö.

Frétt mbl.is: Einn stendur við ummælin

„Margir hverjir fengu bréfin send í gegnum samfélagsmiðla, s.s. Facebook eða tölvupóst, þar sem einnig var tilkynnt að bréfin væru á leiðinni til þeirra með almennum bréfpóst. Þá fengu sumir fyrst fregnir af tilvist kröfubréfanna í gegnum fjölmiðla, þar sem þeir voru nafngreindir og sagðir hafa fjölyrt án fyrirvara um sekt umbjóðenda hans tveggja. Færa má rök gegn þeirri staðhæfingu,“ segir í tilkynningu Sigrúnar og Jóhannesar.

„Í annan stað er það hinn knappi tímafrestur sem aðilum er gefinn. Fyrir flesta vekur bréf frá lögmanni ekki upp jákvæðar tilfinningar, hvað þá þegar erfitt er að meta réttmæti kröfunnar, fjárhæðir eru háar og aðilum hótað tafarlausri málsókn greiði þeir ekki innan örfárra daga. Þá spilar inn í að erfitt getur reynst að nálgast lögmenn um helgar og skömmin við að fá kröfubréf sem þetta oft það mikil að hóflegur umhugsunarfrestur getur skipt sköpum.“

Óttinn stjórni ekki algjörlega umræðunni

„Séu kröfubréfin ekki orðin tóm má velta því fyrir sér hvort umbjóðendur Vilhjálms séu í stakk búnir fjárhagslega til þess að takast á við dómsmálin tuttugu og tvö. Enda eru mörg þeirra að mati undirritaðra mjög ólíkleg til sakfellingar, séu þau borin saman við dómafordæmi Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Séu dómafordæmi skoðuð er ljóst að áhættan getur hlaupið á milljónum í hverju og einu máli. Fyrir utan þá staðreynd að málskostnaður kann að falla á þá þrátt fyrir að málið vinnist. Gera umbjóðendur hans sér grein fyrir þessari fjárhagslegu áhættu,“ spyrja Sigrún og Jóhannes.

„Á undanförnum árum hefur vitneskja um kynferðisbrot, einkenni þeirra og afleiðingar aukist gífurlega. Öll umræða í þjóðfélaginu er orðin mun opinskárri og engum blandast lengur hugur um hve algeng þau eru og skaðleg, bæði fyrir þann er verður fyrir þeim og samfélagið í heild.

Hefur sú vitneskja ekki síst komið til vegna frásagna þeirra þolenda sem stigið hafa fram, enda alla jafna til þess fallin að dýpka enn frekar skilning okkar á þeirri flóknu sálfræði sem að baki þessum brotum búa. Á sama tíma hefur okkur orðið ljós vanmáttur réttarkerfisins til þess að taka á þessum málum. Í þeirri viðleitni að rétta af þetta misræmi þarf engum að koma á óvart að almenningur tjái sig opinskátt um mál sem þessi.

Það er að öllu leyti óásættanlegt að saklausir menn séu ranglega sakaðir um jafn alvarlega refsiverða háttsemi og öllum ljós sá skaði sem í því getur falist. Við getum þó ekki leyft þeim ótta að stjórna algjörlega umræðunni og blinda sýn okkar.

Við höfum séð það í gegnum söguna hversu mikilvægt tjáningarfrelsið er og hversu hættuleg takmörkun þess getur verið. Það er staðreynd að meiðyrðalöggjöfin hefur verið misnotuð í þeim tilgangi að stjórna umræðunni og sum ríki hafa gengið svo langt undanfarin ár að setja sérstök lög sem eiga að taka á því,“ segir einnig í tilkynningu lögmannanna.

Frétt mbl.is: Undirbýr stefnu gegn blaðinu

Frétt mbl.is: Krefjast opinberrar afsökunarbeiðni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert