Vill ljúka fullgildingunni fyrir þinglok

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra vill sjá fullgildingu Parísar-samkomulagsins í loftlagsmálum lokið fyrir þingkosningar. Þetta kom fram í máli hennar á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Spurði Katrín hvers vegna fullgildingin væri ekki í málaskrá ríkisstjórnarinnar og minnti á að Norðmenn stefndu á að ganga frá fullgildingunni fyrir sína parta í sumar.

Ráðherrann minnti á að fjögur ár hafi liðið frá því að Kyoto-samkomulagið hafi verið undirritað á sínum tíma þar til það var fullgilt. Einungis væru um tíu dagar síðan hún hefði hins vegar undirritað Parísar-samkomulagið. Það væri því tími til stefnu. Hún sagði ennfremur að hugleiðingar væru um það hvort nauðsynlegt væri að leggja málið fram í þingsályktunartillögu eða nóg að taka það fyrir í ríkisstjórn. Hún teldi þó eðlilegt að um þingsályktun yrði að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert