Atvikið tilkynnt til lögreglu

Alvarlega atvikið sem varð á Landspítalanum um helgina hefur verið …
Alvarlega atvikið sem varð á Landspítalanum um helgina hefur verið tilkynnt til lögreglu og embættis Landlæknis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Alvarlega atvikið sem varð á Landspítalanum um helgina hefur verið tilkynnt til lögreglu og embættis Landlæknis. Mikil áhersla verður lögð á að greina atburðarásina nákvæmlega. Þetta segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Í fjölmiðlum hefur verið greint frá því að erlendur karlmaður hafi leitað á Landspítala eftir fall í miðbæ Reykjavíkur um helgina. Þar var talið að hann væri rifbeinsbrotinn og þar sem lítið er gert við því nema gefa verkjalyf var hann sendur heim. Líðan hans sögð hafa versnað og var hann sendur aftur á spítalann. Þá komu í ljós innvortis blæðingar og lést hann í aðgerð.

Ólafur vill ekki staðfesta þetta en segir alvarlegt atvik hafa komið upp á spítalanum um helgina. „Það er þannig að við megum alls ekki, vegna persónuverndar, tjá okkur um sjúkrasögu sjúklinga,“ segir hann.

Hann vill ekki segja til um hvort um læknamistök hafi verið að ræða í þessu tilviki. „Þegar alvarleg atvik komu upp á spítalanum þá leggjum við mikla áherslu á að greina nákvæmlega hvað gerðist og það er mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum fyrr en að niðurstaða ítarlegrar rannsóknar liggur fyrir.

Það er bæði okkar reynsla og alþjóðleg reynsla á sjúkrahúsum sem standa sig vel í gæðamálum að orsakir svona atvika eru langoftast margþættar og skýrast af röð ákveðinna atburða sem að lokum leiðir til þess að sjúklingur verður fyrir skaða. Það er gríðarlegt brýnt að nýta slíkar niðurstöður til umbóta og það er það sem er fyrst og fremst okkar áhersla. Við vinnum svona mál á þennan hátt,“ segir Ólafur.

Í hverju felst ítarleg rannsókn á alvarlegum atvikum?

„Við förum eftir ákveðnum ferlum sem er alþjóðleg aðferð sem kallast rótargreining og er meðal annars notuð líka við rannsóknir á samgönguslysum og slíku. Sú aðferðafræði og ferlar sem við notum eru samkvæmt fyrirmynd frá breska heilbrigðiskerfinu og við höfum fengið sérfræðinga þaðan til þess að kenna um okkar starfsfólki þessa aðferð,“ segir Ólafur.

Er lögregla með þetta alvarlega atvik til rannsóknar?

„Það er þannig að þetta mál sem þú vísar í hefur bæði verið tilkynnt til embættis Landlæknis og lögreglu,“ segir Ólafur. Ekki liggur fyrir hvort rannsókn sé hafin.

Frétt mbl.is: Ferðamaðurinn var sendur heim

Frétt mbl.is: Talinn hafa látist vegna mistaka

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, vill ekki segja til …
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, vill ekki segja til um hvort um læknamistök hafi verið að ræða í þessu tilviki. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert