Fara minna til útlanda í nám

Ásta Guðrún Helgadóttir
Ásta Guðrún Helgadóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekki komin með nýjustu tölur frá LÍN en svo virðist sem íslenskir námsmenn fari í minna mæli til útlanda en áður. Aldrei áður á tíu ára tímabili hafa verið jafn fáir íslenskir námsmenn við nám erlendis,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Benti hún á að á tímabilinu 2012-2013 og námsárin 2013-2014 hafi námsmönnum erlendis fækkað úr 2.333 í 2.075.

„Á sama tíma sjáum við að íslenskir námsmenn fá í sífellt meira mæli styrki frá til dæmis danska ríkinu. Mér finnst það mjög varhugaverð þróun. Við sjáum að þau námslán sem boðið er upp á hér eru einfaldlega ekki samkeppnishæf. Þau gera það að verkum að íslenskir námsmenn sjá sér ekki fært að stunda nám erlendis. Þegar maður lítur á tölurnar eru um 2.000 manns á íslenskum námslánum erlendis meðan 900 eða 1.000 íslenskir námsmenn eru á dönskum námslánum í Danmörku. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg þróun og eitthvað sem við þurfum virkilega að athuga,“ sagði Ásta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert