Lífeyrisskuldbindingar stálu senunni

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að háar lífeyrisskuldbindingar hafi stolið senunni í ársreikningum Reykjavíkurborgar.

Fyrri umræða um ársreikninginn hófst á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur fyrr í dag. Þar fór Dagur yfir ársreikninginn.

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári er töluvert frábrugðin áætlun borgarinnar. Munurinn nemur um tólf milljörðum króna. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa fimm milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða króna afgangi.

Meginástæðan er hækkun á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem nema 14,6 milljörðum króna.

Frétt mbl.is: Fimm milljarða halli hjá Reykjavík

Engin lán tekin

Að sögn Dags eru engin lán tekin fyrir lífeyrisskuldbindingunum, heldur sé um að ræða niðurfærslu á eigin fé. Það sé fært sem skuldbinding í bókhaldið. „Borgin þarf að eiga fyrir þessari skuldbindingu. Þess vegna er þetta fært svona.“

Hann bætti við að kjarasamningarnir sem voru gerðir á síðasta og þarsíðasta ári hafi tekið í. Tekjur hafi hækkað hægar. „En við erum að spara samkvæmt áætlun borgarráðs og forsendum í fjárhagsáætlun um 1.800 milljónir á þessu ári." 

Dagur sagði framtíðarhorfurnar í borginni góðar.  „Við munum hægt og bítandi sjá afrakstur hagræðingaraðgerða þessa árs. Það er augljóst að borgin er sterk fjárhagslega í samanburði við önnur sveitarfélög. Hún býr að miklum eignum og sterkri stöðu. Við höfum líka sett okkur skýr markmið til framtíðar sem við ætlum að standa við,“ sagði Dagur.

Óásættanlegt 

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist harma það að niðurstaða ársreikningsins væri mun verri en reiknað var með í fjárhagsáætlun. „Þetta er óásættanlegt í stærsta sveitarfélagi landsins, sem heldur útsvarinu í botni,“ sagði hann.

„Verkefni á borð við þrengingu Grensásvegar er dæmi um stórundarlega forgangsröðun,“ bætti hann við og sagði vanda Reykjavíkurborgar snúast um útgjöld en ekki tekjur. „Kerfið er of stórt. Það þarf að vinda ofan af því.“

Halldór gagnrýndi einnig að rekstarkostnaður borgarinnar, fyrir utan gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga, hefði verið 1,1 milljarði króna yfir áætlun. 

„Við höfum lagt fram tillögur við fjárhagsætlun. Þær eru felldar. Þetta er vandræðaástand. Þið biðjið um tillögur frá okkur og þið fellið þær."

Halldór Halldórsson gagnrýndi ársreikninginn.
Halldór Halldórsson gagnrýndi ársreikninginn. Mynd/Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert