Reykvíkingar spyrja um spartunnur

Magn blandaðs úrgangs hefur dregist saman um 35 prósent á …
Magn blandaðs úrgangs hefur dregist saman um 35 prósent á tæpum tíu árum. Mynd/ Reykjavíkurborg

„Fyrirspurnir um spartunnur eru langt umfram væntingar, við þurftum að panta fleiri en áætlað var og von er á nýrri sendingu upp úr mánaðamótum,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að sífellt meira af plasti berst til endurvinnslu, um 33 tonn frá heimilum í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins, auk þess sem aukning er í pappírstunnunni sem taldi 27 kg á íbúa árið 2014 en 29 kg árið 2015.  Blandaður úrgangur frá heimilum í Reykjavík stóð nánast í stað á milli áranna 2014 og 2015, fer úr 149 kg á íbúa í 151 kg á íbúa. Spartunnan stendur sérbýlishúsum til boða og er sótt á 14 daga fresti. Samkvæmt tilkynningu Reykjavíkurborgar er hún notuð af um 31 prósent sérbýla

„Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur frá heimlum þeirra. Á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í sérbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni en gráa tunnan eða 120 lítrar. Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri gjöld. Oft má fækka gráum tunnum í fjölbýlishúsum þar sem tunnur eru samnýttar og getur þá skapast svigrúm til að fá grænar og bláar tunnur undir endurvinnsluefni.“

Árið 2006 var heildarmagn af úrgangi frá heimilum í Reykjavík 233 kg á íbúa. Árið 2015 hafði sú tala lækkað um 22 prósent og var 181 kg á íbúa. Þar af voru 29 kg endurvinnsluefni svo magn blandaðs úrgangs hefur dregist saman um 35 prósent á tæpum tíu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert