Sýrlenskur laumufarþegi með Norrænu

Norræna í Seyðisfirði.
Norræna í Seyðisfirði. mynd/Einar Bragason

Sýrlenskur karlmaður um þrítugt laumaði sér með Norrænu sem kom að bryggju í Seyðisfirði í dag. Maðurinn gaf sig fram við lögreglu strax við komuna og óskaði eftir hæli. Verður hann að öllum líkindum sendur til Reykjavíkur seinna í dag þar sem mál hans fer í hefðbundið ferli hjá Útlendingastofnun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum var lögreglan við hefðbundið eftirlit á Seyðisfirði í morgun. Maðurinn, sem talar góða ensku, gaf sig þá fram við lögreglumenn og óskaði eftir hæli hér á landi. Ákveðin forvinna er gerð fyrir austan, en næstu skref eru svo á höndum Útlendingastofnunar. Rúv greindi fyrst frá málinu.

Maðurinn var með skilríki á sér og segir lögreglan að málið snúist ekki um fölsuð skilríki. Telja lögreglumenn að maðurinn hafi farið um borð í Danmörku, en ekki er vitað hvort hann ætli sér lengra en til Íslands.

Samkvæmt lögreglunni er maðurinn þokkalega haldinn, en hann var laumufarþegi um borð í skipinu. Er hann núna í góðu yfirlæti lögreglunnar og fær að borða áður en förinni er heitið suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert