Facebook bannar „brjóstaauglýsingu“

Göngum saman.
Göngum saman. Mynd/Af Fésbókarsíðu Göngum saman.

Facebook hefur meinað góðgerðarfélaginu Göngum saman að auglýsa þar sína árlegu mæðradagsgöngu. Um er að ræða stærstu fjáröflun ársins hjá félaginu en ágóðinn rennur til grunnrannsókna  á brjóstakrabbameini.

Ástæðan fyrir banninu er sú að myndir á bolum sem Lóa Hjálmtýsdóttir teiknaði fyrir þær í tilefni göngunnar teljast vera klám að mati síðunnar en geirvörtur koma þar við sögu. Einnig sést teikning af brjósti með geirvörtu í auglýsingunni, sem fór sömuleiðis fyrir brjóstið á Facebook. 

Þrátt fyrir að gulur borði hafi verið settur yfir geirvörturnar hefur það ekki dugað til að hægt sé að auglýsa gönguna á Facebook.

„Algjörlega út í hött“

„Mér finnst þetta bara ótrúlega skrítið. Það sér hver maður að þetta er algjörlega út í hött,“ segir Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman.

„Þetta er alls ekki eitthvað klámtengt á nokkurn hátt en mér skilst að Facebook leiti að brjóstum. Þetta kemur ótrúlega mikið á óvart og við vonum að þetta hafi ekki áhrif á okar góða starf sem hefur verið svo farsælt í níu ár,“ bætir Gunnhildur við.

 „Auglýsingin snýst um að vekja athygli á brjóstakrabbameini og auðvitað er maður með skírskotun í þennan líkamshluta. Það er bara verið að taka þetta úr samhengi.“

Gangan verður haldin um allt land sunnudaginn 8. maí. Frítt er í gönguna en fólk er hvatt til að styðja við málefnið með frjálsum framlögum í söfnunarbauka sem verða á staðnum og kaupa varning sem verður til sölu fyrir og í göngunni.

Nánari upplýsingar um Göngum saman má finna hér

Mynd/Af heimasíðu Göngum saman
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert