Bjarni: „Hvert var umfang skattsvikanna?“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Undirbúningur er hafinn að aðgerðaráætlun gegn skattsvikum að sögn fjármálaráðherra. Meðal þess sem verður gert er að setja á fót sérstakt teymi til að meta umfang fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum og áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi. „Hvert er umfang vandans?“

Þetta kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem gaf Alþingi munnlega skýrslu um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

Vill afhjúpa leyndina

Í upphafi ræðu sinnar sagði Bjarni, að íslensk stjórnvöld væru og hefðu verið í alþjóðlegu samstarfi sem miðaði að því að koma í veg fyrir skattsvik af hvers kyns tagi í gegnum aflandsfélög, enda lengi legið fyrir að þar sé um að ræða alþjóðlegt vandamál.

„Á slíkum svæðum hefur peningaþvætti þrifist og margir hafa nýtt sér það fyrirkomulag sem þar hefur verið samþykkt til þess að skjóta undan skattlagningu, eignum og tekjum.“

Bjarni segir að Ísland hafi tekið virkan þátt í samstarfi OECD-ríkjanna um að þróa sameiginlegan staðal upplýsingaskipti um fjármálaeignir og tekjur af þeim. Ísland sé á meðal þeirra ríkja sem hafi haft forgöngu um aðgerðir gegn skattsvikum á alþjóðavísu.

Hann segir markmiðið með alþjóðlegu samstarfi sé að afhjúpa leyndina og komast að því hvað sé á seyði.

Gerði aldrei ágreining um verðið á skattagögnunum

Bjarni vék í ræðu sinni að kaupum íslenskra stjórnvalda á gögnum sem tengja Íslendinga við skattaskjól, en þau kostuðu 30 milljónir króna. Gögnin eru í vinnslu hjá skattrannsóknarstjóra. „Þessi kaup hafa víða vakið athygli og íslensk stjórnvöld víða verið lofuð fyrir það framtak.“

Ráðherra tók fram að eina spurning ráðuneytisins varðandi þessi gögn hafi verið sú hvort skattrannsóknarstjóri teldi eitthvert gagn af því fyrir meginstarfsemi embættisins að fá gögnin keypt. „Við gerðum aldrei ágreining um verðið. Við gengum út frá því á sínum tíma að verðið yrði allt að fimmfalt [150 milljónir króna] það sem á endanum varð niðurstaðan,“ sagði Bjarni.

Hann benti á, eins og áður hefur komið fram, að gögnin innihaldi að stofni til svipaðar upplýsingar og Panamaskjölin svokölluð. Umfang fjárhagslegra eigna í Panamaskjölunum séu hins vegar enn meiri.

Bjarni sagði að verið sé að vinna úr gögnunum, bæði hjá skattrannsóknarstjóra og hjá ríkisskattstjóra. Bjarni segist reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til að flýta fyrir úrvinnslu gagnanna sem kostur er. Hvort heldur um er að ræða nauðsynlegar lagabreytingar eða stuðning við skattframkvæmdina. Fjármálaráðuneytið er reiðubúið til viðræðna við embættin um ráðstafanir til að þau geti komist yfir sem fyllstar upplýsingar um eignir þeirra sem eru framtalsskyldir hér á landi. 

Nöfn fjölmargra áhrifamanna á Íslandi er að finna í Panamaskjölunum …
Nöfn fjölmargra áhrifamanna á Íslandi er að finna í Panamaskjölunum sem lekið hefur verið frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. AFP

Þríþætt aðgerðaráætlun

Bjarni segir að nú sé unnið að undirbúningi aðgerðaáætlunar sem sé þríþætt. Í fyrsta lagi sé búið að óskað eftir tilnefningu fulltrúa í sérstakan starfshóp, sem ætlað er að gera tillögu að breytingu að lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem saman myndu mynda almenna aðgerðaráætlun í íslenskra stjórnvalda gegn skattaundanskotum, skattsvikum, peningaþvætti og nýtingu skattaskjóla almennt. Í þessum hópi verði fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Þá væntir Bjarni þess að hópurinn muni eiga í samráði við peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara. 

Þá sagði Bjarni að starfshópurinn hefði gagn af því að funda með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og sömuleiðis væri það gagnlegt fyrir nefndina að fá upplýsingar. 

„Ég hef lagt upp með það að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar eigi síðar en 30. júní næstkomandi,“ segir Bjarni.

Í öðru lagi verði sérstöku teymi, með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga, falið að gera sérstakt mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum, samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi. 

Þetta sé svipuð hugmyndafræði og birtist í tillögu sem liggi fyrir þinginu frá þingmanni Vinstri grænna. 

„Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert var umfang skattsvikanna? Hvert er umfang vandans? Hvað er mikið að tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði væru nýtt til að skjóta sér undan íslenskum lögum? Þetta þykir mér sjálfsagt og eðlilegt að gera,“ sagði Bjarni og bætti við að þetta yrði meginverkefni teymisins. Þetta verði til þess að menn hafi betri grundvöll til að ræða umfang vandans.

Ég veit ekki hver sannleikurinn er. Ég hef almenna tilfinningu …
Ég veit ekki hver sannleikurinn er. Ég hef almenna tilfinningu fyrir því að þetta kunni nú að vera dálítið ýktar tölur; sérstaklega að það bíði okkar 300 milljarðar einhversstaðar,“ segir Bjarni. AFP

Efast um að 300 milljarðar bíði skattlagningar í Karíbahafi

Bjarni segir að allt frá hruni hafi ýmsar fullyrðingar verið settar fram um það hversu miklu íslensk stjórnvöld hafi tapað í skatttekjum vegna félaga á þessum svæðum með skattsvikum. Bjarni sagðist hafa heyrt allt frá 300 milljörðum króna sem biðu sanngjarnrar skattlagningar í Karíbahafi yfir í að skattsvikin nemi tugum milljarða á ári. 

„Ég veit ekki hver sannleikurinn er. Ég hef almenna tilfinningu fyrir því að þetta kunni nú að vera dálítið ýktar tölur; sérstaklega að það bíði okkar 300 milljarðar einhversstaðar. Mér finnst það fullmikið í lagt og leyfi mér að hafa efasemdir um það. En að því marki sem hægt er að nálgast sannleikann í þessu þá finnst mér, að við þeir aðstæður sem eru uppi núna, hafa alveg sérstaka skyldu til að gera allt sem hægt er til að komast að hinu sanna í þessu efni.“

Bjarni kveðst hafa væntingar um að þessar niðurstöður geti legið fyrir sem fyrst, helst um mitt þetta ár. „Maður rennir aðeins blint í sjóinn með það hvað er raunhæft að setja starfshópnum mikla tímapressu.“

Nýtt frumvarp verður lagt fyrir ríkisstjórn og Alþingi innan fárra daga

Í þriðja lagi, þá sé unnið að gerð frumvarps þar sem sé að finna ýmsar tillögur frá skattstofnunum þremur. Bjarni telur að unnt sé að hrinda því í framkvæmd án frekari undirbúnings. Frumvarpið muni hann leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi innan fárra daga. 

„Ég legg áherslu á að samþykkt lagabreytinga strax er liður í þessari almennu aðgerðaráætlun sem ég er hér að kynna.“

Í lok ræðu sinnar minntist Bjarni á hugmyndir um að Ísland beiti viðskiptaþvingunum til að ná enn meiri árangri. Bjarni segir nauðsynlegt að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um slíkar þvinganir. „Ég tel að viðskiptaþvinganir Íslands einangraðar muni ekki miklu ná fram. Ég lít þannig á að menn séu að ræða viðskiptaþvinganir gegn þeim ríkjum sem neita þátttöku í upplýsingagjöf og það myndi ég styðja heilshugar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert