Íslenskur vopnasali í sænskum þætti

Loftur Jóhannesson.
Loftur Jóhannesson. Mynd/Skjáskot af vefsíðu Uppdrag Granskning

Nordea-bankinn í Svíþjóð hafði umsjón með aflandsfélögum sem voru skráð á Loft Jóhannesson, sem sagður er tengjast vopnasölu CIA, bandarísku leyniþjónustunnar.

Loftur, sem er 85 ára, var áður í viðskiptum við gamla Landsbankann eða þangað til Nordea tók við viðskiptum hans eftir fall bankans. Upplýsingarnar tengjast Panamaskjölunum.

„Hann var þekktur undir nafninu „Íslendingurinn“ í njósna- og vopnaheiminum en þar græddi hann mikla peninga á áttunda og níunda áratugnum,“ segir á vefsíðu heimildarþáttarins Uppdrag Granskning en fjallað verður um Loft og hin meintu vopnaviðskiptum í þættinum í sænska ríkissjónvarpinu í kvöld.  

Í þættinum kemur fram að Loftur hafi átt þátt í að smygla miklu magni af vopnum frá austantjaldsríkjum til þjóða á borð við Afganistan og Sómalíu.

„Á bólakafi í vopnasmygli“

„„Íslendingurinn“ var á bólakafi í vopnasmygli í leynilegum aðgerðum af hálfu CIA,“ sagði Ken Silverstein, höfundur bókarinnar Private Warrior, sem fjallar um vopnasmyglara í kalda stríðinu, þar á meðal Loft.

„Það liggur enginn vafi á því að Jóhannesson hafi verið vopnasmyglari. Hann græddi mikið á þessu. Milljónir dollara fengust fyrir hvert vopnasmygl sem heppnaðist. Bandaríska leyniþjónustan greiddi mjög vel fyrir vinnu á borð við þá sem Loftur Jóhannesson innti af hendi,“ sagði Silverstein.

Skriðdrekar til Saddams 

Annars staðar hefur komið fram, meðal annars í The Sunday Times, að Loftur hafi tekið þátt í því, með aðstoð austur-þýsku leyniþjónustunnar Stasi, að flytja skriðdreka til herja Saddams Hussein í Írak seint á níunda áratugnum, að því er kom fram á vefsíðu Uppdrag Granskning. 

Nordea-bankinn vildi ekkert tjá sig um möguleg tengsl sín við Loft.

Talsmaður Lofts sagði í svari sínu til Uppdrag Granskning að Loftur stundaði alþjóðleg viðskipti, mestmegnis í flugvélabransanum, og að hann neitaði alfarið að hafa nokkru sinni starfað fyrir leyniþjónustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert