Kosningar kunna að skýra fylgistapið

„Það er alveg ljóst að Píratar eru að tapa fylgi á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn er að ná kjörfylgi sínu. Hann er heldur að sækja í sig veðrið miðað við það sem við höfum verið að sjá,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is spurður út í niðurstöður síðustu skoðanakannana um fylgi stjórnmálaflokkanna.

Nýjustu kannanir Gallup og MMR sýna að Píratar hafi tapað um 8-9 prósentustigum á undanförnum vikum á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig í kringum 5 prósentustigum. Þetta þýðir að flokkarnir eru nú með svipað fylgi en munurinn í könnununum er ekki marktækur. Samkvæmt Gallup er Sjálfstæðisflokkurinn með 27% fylgi en Píratar með 26,6% en í könnun MMR eru Píratar með 28,9% og Sjálfstæðisflokkurinn með 27,8%.

Grétar bendir á að í þessu samhengi að í kosningunum 2013 hafi Sjálfstæðisflokkurinn fengið 26,7% fylgi. Fylgi Pírata hafi hins vegar verið 5,1% þannig að þrátt fyrir lækkun mælist þeir eftir sem áður með margfalt kjörfylgi sitt. Það eigi síðan eftir að koma í ljós hvort fylgi þeirra haldi áfram að lækka og þá um leið hvort fylgi Sjálfstæðisflokksins aukist meira eða ekki.

Fylgi Pírata líklega að fara yfir á VG

„Það er talsvert rót á fylginu greinilega. Vinstri-grænir eru að öllum líkindum að taka eitthvað af fylgi Pírata,“ segir Grétar og vísar til þess að fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafi aukist í síðustu könnunum. Nokkuð minna þó í könnun MMR, sem er sú síðasta sem var birt, en í könnun Gallup. Gallup mælir VG með 18,4% en MMR með 14%. „Enda er kannski ýmsum málum ekki langt á milli stuðningsmanna þessara flokka þó það sé ekki að öllu leyti.“

Spurður hvort fylgistap Pírata megi rekja til þess að styttast fer í þingkosningar, sem fara eiga fram næsta haust, segir Grétar það vafalaust spila inn í. Flokkarnir séu að fara í kosningagírinn og fólk kunni að hugsa hlutina öðruvísi þegar styttast fari í kosningar en á miðju kjörtímabili. Bendir hann á að haustkosningar hafi ekki verið til umræðu þegar fyrri kannanir voru gerðar.

„Munurinn á stöðunni til dæmis þegar MMR gerði fyrri skoðanakönnun sína í byrjun apríl og nú er að þá var ekkert í spilunum annað en að rúmt ár væri í kosningar en nú er það hálft ár. Það gerist í millitíðinni og getur mögulega skýrt það að óánægjufylgi sé hugsanlega að leita annað núna,“ segir Grétar. Þetta eigi þó allt eftir að skýrast og þá sérstaklega eftir forsetakosningarnar í sumar. „Þá fer þetta væntanlega allt á fullt og áherslan verður öll á þingkosningarnar.“

Samfylkingin ekki sloppið við aflandsmálið

Grétar segir aðspurður ekki útilokað að eitthvað af fylgi Pírata sé að fara yfir á Sjálfstæðisflokkinn. „Þó er það nú mín tilfinning að Píratar eigi meira sameiginlegt með stjórnarandstöðuflokkunum en stjórnarflokkunum. En það þýðir auðvitað ekki að það séu ekki einhverjir hægrimenn sem kunna að vera að fara frá Pírötum til sjálfstæðismanna.“ 

Hvað aðra stjórnmálaflokka varðar bendir Grétar á að Framsóknarflokkurinn hafi bætt aðeins við sig en segja megi að flokkurinn haldi í kjarnafylgi sitt með rúm 11% samkvæmt könnun MMR. Hvorki Samfylkingin sé Björt framtíð nái sér á strik. Samfylkingin með 9,7% og Björt framtíð með 3,6%. Spurður hvað geti valdið því að VG bæti við sig en ekki þessir tveir flokkar og hvort forystumál kunni að spila þar inn í segir Grétar að það kunni ef til vill að hafa áhrif.

„Hins vegar má heldur ekki gleyma því að Samfylkingin slapp ekki alveg við snertingu við aflandamálin en Vinstri-grænir gerðu það algerlega. Maður veit ekki hvort það hafi þau áhrif að þeir standi í stað,“ segir Grétar. Þá hafi lengi verið deilur innan flokksins um forystu hans sem ekki hafi verið leiddar til lykta þó forystumálin væri engin allsherjarlausn á vanda hans.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert