Menntunarsjóður selur taupoka

Guðríður Sigurðardóttir, formaður Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur (til vinstri), ásamt Guðrúnu …
Guðríður Sigurðardóttir, formaður Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur (til vinstri), ásamt Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hefur hafið sölu á fjölnota taupokum í sínu árlega fjáröflunarátaki.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, keypti fyrsta pokann af sjóðnum í Pennanum Eymundsson í morgun en pokinn verður seldur næstu tvær vikurnar. 

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hefur frá stofnun árið 2012 styrkt 70 efnalitlar konur til náms og í þeim tilgangi úthlutað alls 100 styrkjum.

Konurnar hafa verið styrktar til margs konar náms, s.s. við framhaldsskóla, Tækniskólann, háskóla og til að fara á ýmis hagnýt námskeið. Sumar hafa þegar lokið háskólaprófi eða fagmenntun á ákveðnu sviði, sumar eru í miðjum klíðum og enn aðrar eru að ljúka námi á þessu ári eða í vor. Flestar eða allar þessara kvenna hefðu ekki átt þess kost að fara í nám hefðu þær ekki hlotið styrk úr Menntunarsjóðnum, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Menntunarsjóðurinn styrkir konur frá öllu landinu, ekki bara í Reykjavík. Síðastliðið skólaár styrkti sjóðurinn 32 konur til náms. Margar konur hafa þegar útskrifast úr námi og nokkrar lokið þriggja ára háskólanámi.

Nánari upplýsingar um sjóðinn eru á heimasíðu Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Maedur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert