Réðst gróflega að eiginkonu sinni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í Hæstarétti Íslands, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir að hafa annars vegar dregið eiginkonu sína inn á baðherbergi heimilis þeirra, reynt að ýta höfði hennar ofan í klósett, hótað henni með hnífi og kastað honum á eftir henni er hún flýði út af heimilinu.

Hins vegar var hann dæmdur fyrir að hafa veist að konunni með ofbeldi og hótunum inni í hjónaherbergi þeirra þar sem hún lá með ungan son þeirra.

Honum var einnig gert að greiða 700 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta, samkvæmt dómi hæstaréttar

Átti sér engar málsbætur 

Maðurinn hafði áður verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur og dæmdur til að greiða hálfa milljón króna í miskabætur, auk vaxta. Hann áfrýjaði þeim dómi, sem hæstiréttur hefur núna ákveðið að þyngja.

Ástæðan fyrir þyngri refsingu var sú að hann hefði ráðist að eiginkonu sinni á grófan hátt á heimili þeirra og ætti sér engar málsbætur. Á hinn bóginn var litið til þess að óútskýrður dráttur hefði orðið á rannsókn málsins.

Maðurinn þarf að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 736.027 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert