Telja kostnaðarþakið of hátt

Alþýðusambandið telur kostnaðarþakið í framvarpinu of hátt.
Alþýðusambandið telur kostnaðarþakið í framvarpinu of hátt. mbl.is/Golli

Alþýðusamband Íslands fagnar því að fram séu komnar hugmyndir heilbrigðisráðherra um breytingar á greiðsluþátttöku sem miða að því að setja hámark á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. 

Miðstjórn ASÍ gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við að breytingarnar séu eingöngu fjármagnaðar með aukinni kostnaðarþátttöku allflestra notenda heilbrigðisþjónustunnar.

„Hér er verið að færa kostnað á milli hópa. Ekki stendur til að auka fjármagn til málaflokksins og draga úr heildarkostnaðarþátttöku sjúklinga. Þetta mun leiða til þess að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hækkar bæði hjá sjúklingum almennt en ekki síður hjá öldruðum og öryrkjum,“ segir í ályktun frá miðstjórn ASÍ. 

Þá telur Alþýðusambandið það kostnaðarþak sem sett er fram í frumvarpinu of hátt. „Ekki síst í ljósi þess að lyfjakostnaður og sálfræðiþjónusta er fyrir utan þetta kerfi en báðir þættir eru mjög dýrir fyrir fjölda fólks.

Margir munu því áfram hafa heilbrigðiskostnað sem fer talsvert umfram það hámark sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það býður heim hættunni á því að þeim fjölgi enn sem hafa ekki efni á að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Það er með öllu óásættanlegt,“ segir einnig í ályktuninni. 

„Loks má benda á að frumvarp heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir því að heimilt verði að hækka gjald fyrir ákveðna þætti heilbrigðisþjónustunnar ef sjúklingur sækir þjónustu án tilvísunar frá heilsugæslulækni.

Alþýðusambandið telur að taka eigi upp tilvísunarkerfi enda sé heilsugæslan styrkt þannig að hún verði í stakk búin til að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Það er fjarri lagi í dag og því telur miðstjórn ASÍ ekki tímabært að taka upp tilvísunarkerfi að sinni.“

Frétt mbl.is: Greiða aldrei meira en 95.200 krónur á ári

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert