Foreldrar Bjarna áttu aflandsfélag

Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. AFP

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, stofnaði árið 2000 fyrirtækið Greenlight Holding Luxembourg S.A. á Tortólu í gegnum lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Benedikt sat í stjórn félagsins ásamt eiginkonu sinni og móður Bjarna, Guðríði Jónsdóttur. Hætt var að greiða gjöld af félaginu til Mossack Fonseca árið 2010. 

Þetta er meðal upplýsinga sem hafa fengist úr Panama-skjölunum sem lekið var til þýska blaðsins Süddeautsche Zeitung og unnið var með ásamt ICIJ, alþjóðasamtökum blaðamanna. Íslenski miðillinn Reykjavík Media hefur unnið að gögnunum í samstarfi við aðra fjölmiðla hér, en það er Stundin sem greinir frá þessu máli. Tekið er fram í umfjölluninni að notkun aflandsfélaga sé ekki ólögleg, en geti leitt til skattalegs hagræðis.

Bjarni Benediktsson kynnti í gær að undirbúningur væri hafinn að aðgerðaáætlun gegn skattsvikum. Meðal annars væri verið að setja á fót sérstakt teymi til að meta umfang fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum og að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi. Bjarni hefur sagt í ræðum sínum undanfarnar vikur að skoðun á aflandsstarfsemi eigi að beinast gegn þeim sem hafi stundað lögbrot og skattasvik, ekki ef slík félög hafi verið notuð á löglegan hátt.

Benedikt hefur víða komið við í íslensku viðskiptalífi auk þess sem hann var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í þrjú kjörtímabil frá 1986 til 1998. Sat hann meðal annars í stjórnum Eimskipa, Sjóvá, Íslandsbanka, N1 og Icelandair.

Benedikt Sveinsson.
Benedikt Sveinsson. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert