„Komum, þetta er nóg“

Tvær stúlknanna fjögurra eru úr Austurbæjarskóla, þar sem fórnarlambið stundar …
Tvær stúlknanna fjögurra eru úr Austurbæjarskóla, þar sem fórnarlambið stundar nú nám. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

RÚV birti í kvöld myndband af líkamsárás á unglingsstúlku sem átti sér stað um kvöldmatarleytið á þriðjudagskvöld. Að því er fram kom í sjónvarpsfréttum hefur myndbandinu verið dreift á samfélagsmiðlum, en RÚV fékk samþykki föður stúlkunnar fyrir birtingu þess.

Frétt mbl.is: Réðust á stúlku við Langholtsskóla

Samkvæmt RÚV bar árásina að með þeim hætti að stúlkan, sem fluttist úr Langholtsskóla í Austurbæjarskóla um áramótin, fékk skilaboð þar sem hún var spurð að því hvar hún væri stödd, en stuttu síðar komu þangað fjórar unglingsstúlkur og ráðist var á stúlkuna.

Á myndbandinu sést hvernig stúlkan sem varð fyrir árásinni gefur frá sér sársaukahljóð á meðan sparkað er í hana, en undir lokin heyrist einhver segja „komum, þetta er nóg“.

RÚV hefur eftir föður stúlkunnar að hún hafi þolað mikið einelti í Austurbæjarskóla en fundur með skólastjóra og námsráðgjafa hefði ekki borið árangur. Hann gagnrýnir úrræðaleysi.

Árásin var kærð til lögreglu í gær og hefur RÚV eftir Benedikt Lund lögreglufulltrúa að um sé að ræða ljótt eineltismál sem sé í algjörum forgangi hjá lögreglu. Aðeins ein stúlknanna fjögurra er sakhæf, að sögn Benedikts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert