„Þessi þráhyggja er svolítið skrýtin“

Hildur Eir segir frá baráttu sinni við áráttuþráhyggju í nýrri …
Hildur Eir segir frá baráttu sinni við áráttuþráhyggju í nýrri bók.

„Þessi bók er saga mín og minnar kvíðaröskunar frá því ég var barn og til dagsins í dag,“ segir sr. Hildur Eir Bolladóttir í samtali við mbl.is en á dögunum kom út bók eftir hana þar sem skrifar á persónulegu nótunum um baráttu sína við kvíða. Bókin heitir Hugrekki - Saga af kvíða og fæst í öllum helstu bókabúðum. „Það má kannski segja að þetta sé svona óður til þeirra bjargráða sem lífið hefur gefið mér og það er ákveðin endurgjöf að skrifa þessa bók,“ segir Hildur Eir.

Hildur Eir segir bókina ekki beint sjálfshjálparbók heldur fyrst og fremst áhugaverða lesningu, ekki síst fyrir þá sem hafa aldrei glímt við kvíða. „Þetta er bara mín frásögn sem er oft alveg fyndin. Þetta er ekki bara eintóm þjáning og sársauki þó hann sé undirliggjandi.“

Hildur Eir þjáist af áráttuþráhyggju eða OCD. Hún segir mikið hafa verið skrifað um þessháttar kvíðaröskun á erlendum tungumálum en lítið á íslensku. „Ég held að það sé útaf því að þessi þráhyggja er svolítið furðuleg og fólk er ekki tilbúið til þess að tala mjög opinberlega um hana. Fólk getur talað um kvíða almennt og þunglyndi en þessi þráhyggja er svolítið skrýtin og færri vilja tala um hana því það vill enginn vera skrýtinn. En ég er búin að sættast við það að vera svolítið skrýtin.“

Hildur Eir segist lengi hafa velt fyrir sér áráttuþráhyggjunni og reynt að finna ýmsar leiðir til að lifa með því. „Ég hef reynt ýmislegt gagnlegt og ýmislegt sem var ekki gagnlegt. En núna er ég komin með ákveðna fjarlægð frá þessu til að geta sagt þessa sögu. Ég held að það skipti mjög miklu máli að segja ekki söguna með storminn í fanginu heldur þegar hann hefur lægt,“ segir hún.

„Við sem manneskjur ráðum ekki alltaf því hvaða hugsanir fara í gegnum heilann á okkur, hann framkvæmir ýmsar hugsanir bæði velkomnar og ekki,“ segir Hildur beðin um að útskýra áráttuþráhyggju. „Sá sem er ekki með áráttuþráhyggju leyfir ýmsum hugsunum að fara í gegn en hjá þeim sem er með hana festast hugsanirnar og hann leggur merkingu í þær sem leiða oft til vanlíðan. Hann veit að þetta eru ekki rökréttar hugsanir en þær festast. Þetta eru t.d. hugsanir um að þú sért ógeðsleg manneskja, líkleg til að gera einhverjum eitthvað, eða að þú sért svindlari eða svikari.“

Hún segir þá sem eru með áráttuþráhyggju einnig oft vera með sýklafóbíu eða hræddir um að hafa ekki slökk á eldavélinni eða þurrkaranum þrátt fyrir að hafa ítrekað gáð.

„Í þessari bók segi ég mína sögu og allar birtingamyndir áráttuþráhyggju í mínu lífi og þær eru margar. Það var ekki auðvelt að segja frá sumu þar sem um er að ræða mjög persónulegar hugsanir. Ég þurfti langan tíma, fjarlægð og hugrekki til að þora að segja frá,“ segir Hildur.

Hún segist vona að bókin muni hjálpa þeim sem þjáist af áráttuþráhyggju en ekki síst þeim sem hafa ekki glímt við hana. „Ég von að þetta veiti þeim innsýn í sjúkdóminn svo þeir geti verið til staðar og sýnt þessu skilning. Það er það sem skiptir mestu máli og hjálpar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert