Harmar líkamsárás tengda einelti

Þolandinn og að minnsta kosti tveir gerendur í málinu ganga …
Þolandinn og að minnsta kosti tveir gerendur í málinu ganga í Austurbæjarskóla mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Skólastjóri Austurbæjarskóla hefur í dag fundað með yfirmönnum skóla- og frístundasviðs, ráðgjafa foreldra og skóla og fulltrúum frá þjónustumiðstöð þar sem farið var yfir málsatvik og verklag skólans vegna eineltismáls sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

Í bréfi Kristínar Jóhannesdóttur skólastjóra Austurbæjarskóla til foreldra nemenda við skólann segir að unnið verður áfram með foreldrum og sérfræðingum að úrlausn málsins með hag barnanna að leiðarljósi.

Í skriflegu svari Kristínar við fyrirspurn mbl.is um málið segist hún vera bundin trúnaði og geta ekki tjáð sig um málefni einstakra nemenda, foreldra eða samstarfsfólks. Að sögn Kristínar hefur ákveðnu ferli um viðbrögð vegna eineltis fylgt í málinu og unnið samkvæmt verklagsreglum skóla- og frístundasviðs.

„Skólasamfélag Austurbæjarskóla harmar það atvik sem átti sér stað sl. þriðjudag og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Hugurinn er hjá þolanda og fjölskyldu hans en einnig hjá öðrum börnum og fjölskyldum sem málinu tengjast. Skólinn mun vinna náið með öllum þeim sem vinna að úrlausn málsins og veita þann stuðning sem á þarf að halda,“ segir í skriflegu svari Kristínar.

Í bréfi sem Kristín sendi til foreldra nemenda við skólann kemur fram að skólastjórnendur hafi í dag gengið í bekki  í 5.- 10. bekk og rætt við nemendur. Umsjónarkennarar nemenda í 1.-4. bekk hafa eftir atvikum rætt við sína nemendur.

„Rætt var um að í skólanum líðum við ekki einelti né annað  ofbeldi og bregðumst alltaf við ef slíkt kemur upp skv. reglum skólans og verklagsreglum skóla- og frístundasviðs. Lögð var áhersla á að það væri ekki nemenda að dæma í atvikum sem þessum heldur væri það okkar að huga að samlíðan og byggja upp jákvæð samskipti  og góðan skólaanda,“ segir í bréfinu.

Hvetur hún foreldra til þess að vera vakandi yfir líðan barnanna sinna þar sem þau tjá sig gjarnan með ólíkum hætti.

Eins og fyrr hefur verið sagt er málið í rannsókn hjá lögreglu og þá stendur nú yfir skýrslutaka á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Fyrri frétt mbl.is: Taka skýrslur af þolanda og gerendum

Fyrri frétt mbl.is: „Kom­um þetta er nóg“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert