Hreinsunardagur í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heiraði nokkra unga eldhuga í umhverfismálum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heiraði nokkra unga eldhuga í umhverfismálum.

Átakið Hreinsum saman – tökum þátt og tínum rusl hefur gengið vel og hafa margir lagt verkefninu lið síðustu daga. Átakið er liður í  evrópskri hreinsunarviku sem Reykjavíkurborg tekur nú þátt í. Á morgun, laugardaginn 7. maí, verður haldinn almennur hreinsunardagur og hefur verið opnuð sérstök skráningarsíða þar sem hægt er að velja sér tiltektarsvæði á opnum leiksvæðum og nágrenni.  

 Öll opin leiksvæði hafa verið skráð inn á skráningarsíðuna og auðvelt að velja sér stað. Þeir sem vilja geta fengið ruslapoka á hverfastöðvum Reykjavíkurborgar á Njarðargötu, við Jafnasel og Stórhöfða á laugardeginum eða dagana á undan. Starfsfólk borgarinnar sækir pokana á opnu leiksvæðin eftir helgina. 

Ungir eldhuga í umhverfismálum hljóta viðurkenningu

 Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók þátt í átakinu ásamt starfsfólki ráðhúss Reykjavíkur miðvikudaginn 4. maí og hirti upp rusl í nágrenni við ráðhúsið og veiddi rusl upp úr Tjörninni.  Hann notaði tilefnið og heiðraði nokkra unga eldhuga í umhverfismálum sem hafa meðal annars komið á fund til hans og staðið fyrir hreinsunarátaki á eigin vegum í nágrenni sínu. Hann afhenti þeim viðurkenningarskjal og skráningu á eitt sumarnámskeið í þakkarskyni.

Borgarstjóri sagði að það væri ekki síst fyrir eldhuga eins og þau að farið er í hreinsunarátak í borginni. „Það er ómetanlegt að eiga svona frumkvöðla eins og ykkur sem eru svona góðar fyrirmyndir og ég á von á því að krakkar, fjölskyldur og fólk í öllum hverfum muni taka þátt í átakinu næstu daga og fegra borgina okkar. Takk fyrir,“ er haft eftir Degi í fréttatilkynningu.

Allar upplýsingar um þetta starf er að finna á heimasíðunni reykjavik.is/hreinsumsaman og Facebook-síðunni https://www.facebook.com/hreinsumsaman

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert