Notaði mat til að finna sársauka

Pieta samtökin vilja opna umræðu um sjálfsvíg og sjálfsskaða.
Pieta samtökin vilja opna umræðu um sjálfsvíg og sjálfsskaða. mbl/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Fyrsta orðið sem kom upp í hugann þegar ég frétti að stofna ætti Pieta-samtökin var von,“ segir Fjóla Kristín Ólafardóttir, 25 ára gömul kona, sem er bæði aðstandandi manneskju sem stytti sér aldur og sjálf hefur hún verið í myrkrinu, eins og hún orðar það. „Fyrir mér og mörgum öðrum er það gjöf að fá samtök sem þessi.“ 

„Úr myrkrinu í ljósið“ er yfirskrift göngu sem Pieta-samtökin standa fyrir í nótt kl 4 en það verður gengið frá húsi KFUM og KFUK nokkra kílómetra og inn í dagsbirtuna. Gangan er til að vekja athygli á sjálfsvígum og sjálfsskaðandi hegðun og opna umræðu um þau málefni. Gengið verður á sama tíma víða um heim en Pieta-samtökin eru alþjóðleg samtök sem eru írsk að uppruna.

Fjóla segist hafa byrjað að bæla erfiðar tilfinningar með mat þegar hún var í 8. bekk, eða 13 ára gömul, en hefur stundað sjálfsskaðandi hegðun síðan hún var 18 ára. „Ég vann sjálf í mínum málum með hléum í 10 ár og var inn á milli í skóla eða vinnu. Ég fór til sálfræðings, á námskeið og fleira, þessi hegðun kemur í bylgjum, en ég fékk aldrei þá hjálp sem ég þurfti,“ segir Fjóla.

Nota sjálfsskaða til að þurfa ekki að horfast í augu við sjálft sig

„Sjálfsskaði er leið fólks til að þurfa ekki að horfast í augu við sjálft sig. Fólk sem gerir tilraun til sjálfsvígs vill ekki endilega deyja, það getur bara ekki hugsað sér að lifa lengur við þá vanlíðan sem það finnur og heldur að fjölskyldan sé betur sett án sín,“ segir Fjóla. Hún segist hafa notað mat til að finna sársauka. „Ég borðaði þar til mig verkjaði og leið illa.“

Hún segir að það sé mjög misjafnt hvað fólk geri til að skaða sjálft sig og deyfa tilfinningarnar. „Hjá mörgum brýst þetta út í hegðun, fólk leitar í aðstæður þar sem því líður illa, verður fyrir einhverri höfnun eða fær verki. Þegar ég fór í Hugarafl fékk ég tækifæri. Þeir sem stunda sjálfsskaðandi hegðun nota hana sem aðferð til að deyfa sársauka."

Verður auðveldara að fá hjálp

Fjóla segist telja að það verði mun auðveldara fyrir fólk að sækja aðstoð til Pieta-samtakanna en í heilbrigðiskerfið.  „Hjá samtökunum er fólk nálgast á jafningjagrunni sem er mjög mikilvægt. Því er leyft að tala en það er einmitt það sem þarf. Fólk verður að fá að tala um tilfinningar sínar og líðan ef það á að fá bata. Það er allt of mörgu ungt fólk sem líður illa, stundar sjálfsskaðandi hegðun og fær ekki viðeigandi hjálp. Það fær útrás fyrir tilfinningar sínar með þessum hætti. Maður heyrir alls staðar þetta sama: „Þú ert nú svo ung og átt framtíðina fyrir þér“.“ 

Fjóla segir að alls staðar séu ráðleggingarnar þær sömu og á geðdeildum sé fólki ekki leyft að tala út. „Þar er manni sagt hvernig maður eigi að vera og hvað maður eigi að gera en vandinn hverfur ekkert við það,“ segir hún um upplifun sína. Fjóla segir að fólk verði að fá að tala sjálft. „Á geðdeildinni er fólk látið sofa úr sér og það sent heim eftir nokkra sólarhringa, ef það á annað borð kemst inn,“ segir hún.

Hún segir jafnframt að biðlistar séu langir á geðdeildir en að það sé erfitt þegar um svo alvarleg mál sé að ræða eins og sjálfsvígshugsanir, þau þoli oft enga bið. „Manneskja er ekki skoðuð í heild á geðdeild, þar er ekki verið að bregðast rétt við vanda fólks,“ segir Fjóla. „Núna er ég að fá rétta aðstoð hjá Pieta-samtökunum og fæ tækifæri til að láta drauma mína rætast,“ segir hún bjartsýn.

Sjálfsskaði og afleiðingar

Talið er að um 1% fólks stundi sjálfsskaðandi hegðun en hún hefst oft á kynþroskaaldrinum. Sjálfsskaðandi hegðun getur verið hættuleg en þeir sem stunda hana eiga það sameiginlegt að finnast að ekki sé á þá hlustað, að lítið sé gert úr tilfinningum þeirra og oft eru þeir hræddir við náin sambönd.

Margir skera sig, t.d. í fætur eða hendur, jafnvel brenna sig á líkamanum en þeir eru líka til sem nota harkalega megrun til að skaða sig. Margir sem stunda sjálfsskaðandi hegðun nota fleiri en eina aðferð. Sjálfsskaði sem ekki er ætlaður til sjálfsvígs er oft merki um að einstaklingurinn geti ekki tekist á við tilfinningalegan sársauka. Fólk finnur fyrir létti eftir sjálfsskaðandi hegðun en það varir ekki lengi. Það getur því myndast vítahringur. Einnig getur sjálfsskaðandi hegðun aukið hættu á sjálfsvígi vegna undirliggjandi þátta sem hvetja til sjálfsskaðandi hegðunar ef þeir eru ekki meðhöndlaðir.

Afleiðingar sjálfsskaðandi hegðunar eru margvíslegar, t.d. minnkað sjálfsmat, sýkingar eftir sár, varanleg ör eða afmyndum líkamsparta og að undirliggjandi vandamál versni ef ekki er brugðist við.

Fyrri frétt mbl.is: Vilja opna umræðu um sjálfsvíg

Fjóla Kristín Ólafardóttir
Fjóla Kristín Ólafardóttir Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert