Snjóblinda verður SNJÓR í Frakklandi

Ragnar, ásamt blaðamönnunum frönsku, fyrir utan heimili aðalpersónunnar. Það er …
Ragnar, ásamt blaðamönnunum frönsku, fyrir utan heimili aðalpersónunnar. Það er frábært að sjá þennan mikla áhuga sem bókinni er sýndur í Frakklandi og gaman að geta sýnt blaðamönnunum Siglufjörð í vorsnjónum, segir Ragnar.

Um þessar mundir eru staddir hér á landi blaðamenn Le Figaro, Elle og Paris Match, en þeir eru að kynna sér söguslóðir Siglufjarðarsyrpu Ragnars Jónassonar. Snjóblinda kemur út í Frakklandi 12. maí næstkomandi en þýðandinn hefur ákveðið að titill hennar verði SNJÓR.

Fyrsta upplag hefur verið stækkað úr 15.000 eintökum í 21.000 eintök, en heimsókn blaðamannanna frönsku er í boði forlagsins La Martiniére Littérature. Þeir hafa m.a. heimsótt hús ömmu og afa Ragnars, sem er fyrirmyndin að heimili aðalpersónu Siglufjarðarsyrpunnar, og gengið um bæinn.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Bjarti hefur breska framleiðslufyrirtækið On the Corner tryggt sér réttinn á seríunni en fyrirtækið hlaut Óskars- og BAFTA-verðlaunin fyrir heimildarmynd sína um tónlistarkonuna Amy Winehouse.

„Gagnrýnandi l’Express segir í fyrstu gagnrýninni sem birtist um Snjóblindu í Frakklandi að það sé vissulega ofnotað að segja að eitthvað sé á enda veraldar en það eigi hinsvegar sannarlega við um Siglufjörð, ekki síst þar sem bærinn sé norður við heimskautsbaug. Aðeins sé hægt að komast til þessa heillandi bæjar um jarðgöng og þegar snjóflóð falli lokist allt. Hann sé því gullið sögusvið fyrir rithöfunda og Ragnar Jónasson hafi orið fyrstur til að stökkva á hann árið 2010. Gagnrýnandinn sér áhrif frá Agöthu Christie í Snjóblindu, enda hafi Ragnar þýtt fjórtán skáldsögur eftir hana: sögusviðið sé innilokað og fjöldi hugsanlegra ódæðismanna takmarkaður,“ segir í tilkynningu Bjarts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert