„Trúðu mér, hún verður prentuð aftur“

Stefán Pálsson (t.v.) og Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, kynntu síðustu …
Stefán Pálsson (t.v.) og Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, kynntu síðustu símaskránna í dag. mbl.is/Eggert

„Símaskráin er orðin barn síns tíma og kveðjum við hana með söknuði,“ sagði Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Já, og vísar í máli sínu til þess að í dag, þ.e. 6. maí, fer síðasta útgáfa símaskrárinnar í dreifingu. Í tilefni þess var haldinn stuttur blaðamannafundur á Kaffi Mokka í Reykjavík þar sem síðasta skráin var kynnt.   

Símaskráin hefur verið gefin út frá árinu 1905 og hefur hún því fylgt landsmönnum í 111 ár. Á þeim tíma hefur símaskráin gegnt mikilvægu upplýsingahlutverki á heimilum landsins, s.s. þegar kemur að upplýsingum er varða viðbrögð við hvers kyns vá, en um leið hefur hún markað sér menningarlegan sess innan samfélagsins.  

Kápa símaskrár hvers árs hefur gjarnan endurspeglað tíðarandann hverju sinni en hönnunin á þessari síðustu símaskrá var í höndum Guðmundar Odds Magnússonar, betur þekktur sem Goddur, prófessors við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Stefán Pálsson sagnfræðingur ritaði sögu símaskrárinnar sem gefin er út með skránni. Þeir félagar voru báðir viðstaddir blaðamannafundinn í dag. 

Trúir að hún komi aftur

„Símaskránni fylgdu svo miklar tilfinningar, bæði hjá fólki á mölinni og í sveitinni, vegna þess að maður var með henni að hafa samband við fólkið sitt. Á menningarheimilum í sveitinni, þar sem stundaður var útsaumur og annars konar handverk, var mjög algengt að búa til kápu utan um símaskránna með útsaumi,“ sagði Goddur og benti á að símaskráin var því oft eins konar stofustáss á heimilum fólks.  

Að sögn Godds hefur hann lengi haft skoðanir á útliti fyrri símaskráa og því langaði hann mjög, er hann hannaði kápuna fyrir síðustu símaskránna, að heiðra þessa dyggð. „Ég vildi gera umbúðir utan um hana svo hún yrði heimilisleg og hlý. Þannig að fólki þætti vænt um hana og hún hefði eitthvað vægi sem stæði nær hjartanu.“

Aðspurður segist Goddur trúa því að símaskráin snúi aftur. „Ég trúi því ekki að þetta sé síðasta símaskráin, en í bili er þetta sú síðasta. [...] Eftir 5 til 10 ár, trúðu mér, hún verður prentuð aftur.“

Stefán segir símaskránna löngum hafa verið uppsprettu fróðleiks. „Að sjá á eftir síðustu símaskránni er dálítið eins og ferðast með síðustu seglskútunni eða póstvagnaferðinni. Símaskráin var stórkostleg uppspretta fróðleiks um ótal þætti samfélagsins í áratugi. Vonandi hefur okkur tekist að gera hluta af þeirri sögu skil í þessari útgáfu,“ sagði hann.

Símaskráin víða aðgengileg

Á höfuðborgarsvæðinu er símaskráin aðgengileg í verslunum Símans, Vodafone og 365, afgreiðslustöðvum Póstsins, verslunum Nettó og á skrifstofum Já í Glæsibæ í Reykjavík.

Á landsbyggðinni verður hægt að nálgast símaskránna á afgreiðslustöðvum Póstsins, í verslunum Símans og Vodafone á Akureyri og verslunum Nettó á Akureyri, Egilsstöðum, Borgarnesi, Selfossi og Húsavík. Símaskráin er að fullu endurvinnanleg og hægt er að skila henni í grenndargáma, á endurvinnslustöðvar eða setja hana í bláu tunnuna.

Þann 17. maí næstkomandi verður opnuð sýning á Mokkakaffi á forsíðum símaskrárinnar sem einkenna viss stíltímabil. Sýningarstjóri er Goddur og stendur sýningin til 20.júní 2016. 

"Eftir 5 til 10 ár, trúðu mér, hún verður prentuð aftur," sagði Goddur um skránna er hann ræddi við blaðamenn. Með honum á mynd er Stefán Pálsson sagnfræðingur (t.v.). mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert