Fagnar því að kosningarnar verði sögulegar

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Golli

Ákvörðun Davíðs Oddssonar að bjóða sig fram til forseta hefur ekki áhrif framboð Guðna Th. Jóhannessonar til embættisins.

„Ég fagna því að þessar forsetakosningar verða ennþá sögulegri. Það eru mikil forréttindi fyrir mig að taka þátt í því að skapa söguna en vera ekki eingöngu að skrifa hana,“ segir Guðni.

„Þetta verður mjög gaman, Davíð var einn umdeildasti stjórnmálamaður síðustu aldar.“

Guðni segir þeirra samskipti hafa verið vinsamleg, en honum hugnist ekki öll rök sem Davíð hafi fært fyrir framboði sínu. Viss samhljómur sé með þeim rökum sem Davíð og Ólafur Ragnar gefi fram. „Að þeir verði að standa vaktina því að næsta kynslóð geti ekki tekið við.“

Guðni segist telja það mistök hjá Ólafi Ragnari að bjóða sig fram í sjötta sinn og sjálfur telji hann það vera í ósamræmi við sannfæringu forsetans.

„ Það er ekki þannig að allt sé að fara á hvolf. Það er ekki ekki þannig að við verðum að halda í Ólaf Ragnar eða Davíð. Það er ekki svartnætti framundan. Við getum haldið áfram án þess að vera undir öruggum handarjaðri Davíðs eða Ólafs Ragnars, en auðvitað er það fólki sem velur forsetann,“ sagði Guðni.

Spurður um sína skoðun á málskotsrétti forsetans svaraði hann: „Mér hugnast sú tillaga sem birst hefur hjá stjórnlagaráði að forseti haldi þessum rétti, þó að hann sé líka færður til þjóðarinnar. Í lýðræðissamfélagi 21. aldar þarf tiltekin hluti þjóðarinnar að geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hann telur framboð Davíðs ekki vinna með Ólafi Ragnari og ekki sé ólíklegt að þeir sæki í sömu kjósendur. 

„Ég held að Ólafur Ragnar græði ekki á þessu.“ Ekki  sé þá óhugsandi að Ólafur Ragnar dragi framboð sitt til baka nú þegar Davíð hefur gefið kost á sér. „Kannski að hann hugsi sem svo að þarna sé kominn forsetaframbjóðandinn og hann geti dregið sig í hlé.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert