Fjallaskíðamót í meters háum snjó

ljósmynd/Jón Steinar Ragnarsson

„Þetta voru bestu aðstæður sem hægt er að hugsa sér,“ segir Tómas Guðbjartsson, verndari fjallaskíðamótsins SSS - Super Troll Ski Race, sem fram fór á Siglufirði í gær í mikilli veðurblíðu. Snjó hefur kyngt niður á svæðinu síðustu daga og er með því mesta sem sést hefur allt árið.

Leiðin var tæplega 8 km löng og var gengið úr Fljótum yfir á Siglufjörð um Siglufjarðarskarð. Alls voru 35 keppendur skráðir til keppni, 28 karlar og 7 konur en allir luku ekki keppni. Fyrstur karla var Ian Havlick á tímanum 1:18:20 en næstur Bjarki Guðjónsson (1:27:32) og þar á eftir Atli Þór Jakobsson (1:28:12). Í kvennaflokki vann Erin Jorgensen a tímanum 1.32.27 en næst kom Inga Dagmar (1:53:21) og síðan Dagný Heiðdal (1:59:41).

Tómas segir veðurblíðuna hafa komið flestum á óvart, og nokkrir hefðu jafnvel skráð sig úr keppni á dögunum fyrir mót þar sem veðurspáin hafi gefið til kynna leiðindaveður. Þá þurfti að breyta leiðinni sem farin var vegna snjóflóðahættu. Skömmu fyrir mótið segir Tómas hins vegar allt hafa dottið í dúnalogn og aðstæðurnar því verið frábærar.

Keppnin hefur fest sig í sessi á Íslandi og er gott dæmi um vaxandi áhuga almennings á fjallaskíðum að sögn Tómasar. „Þetta er gósentíð fyrir fjallaskíðafólk,“ segir hann að lokum.

ljósmynd/Jón Steinar Ragnarsson
ljósmynd/Jón Steinar Ragnarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert