Forsetinn rangtúlkar orð Katrínar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist ekki átta sig á gagnrýni Ólafs Ragnars Grímssonar sem segir hana hafa farið með „algert bull“ og að hún hafi sagt að nafn hans kæmi fram í Panamaskjölunum. Hún segir forsetann rangtúlka orð sín og að hann verði að geta tekið gagnrýni í almennri umræðu. 

Í viðtali við mbl.is í gær gagnrýndi Ólafur Ragnar Katrínu sérstaklega fyrir að hafa sagt að fjallað væri um hann í Panamaskjölunum.

„Það er bara algert bull. Það er ekki minnst á mig einu orði í Panamaskjölunum til eða frá. Þess vegna skiptir líka miklu máli ef við ætlum að ná utan um þessa umræðu sem er mikilvæg á árangursríkan hátt að menn haldi sig við staðreyndir, sérstaklega ábyrgir alþingismenn,“ sagði forsetinn.

Vísaði hann þar væntanlega til orða Katrínar í umræðum um munnlega skýrslu fjármálaráðherra um aflandsfélög á Alþingi á miðvikudag. Þar sagði Katrín orðrétt:

„[...] af því að Panamaskjölin og þær upplýsingar sem þar koma fram, nú síðast um forseta lýðveldisins en áður um ráðherra hæstvirta í ríkisstjórninni og fleiri aðila, hafa auðvitað haft gríðarleg áhrif á orðspor Íslands úti í hinum stóra heimi en hafa líka grafið mjög undan trausti hér í samfélaginu [...]“

Skilja allir sem skilja vilja

Í samtali við mbl.is segir Katrín að upplýsingarnar sem hún vísaði til snúist ekki um forsetann sjálfan heldur að sjálfsögðu um maka hans og tengdafjölskyldu og að þeirra nöfn séu í skjölunum.

„Það er nú allt og sumt sem ég sagði í þessari ræðu. Það að hann hafi kosið að túlka það þannig að ég hefði sagt að hans nafn væri í skjölunum, það er bara ekki rétt og er rangtúlkun á mínum orðum. Þetta skilja auðvitað allir sem vilja skilja og hefur alls staðar komið fram. Auðvitað verður forsetinn að geta tekið gagnrýni í almennri umræðu eins og aðrir kjörnir fulltrúar,“ segir hún.

Spurð út í álit hennar á forsetaframboði Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og mbl.is, segist Katrín þeirrar skoðunar að það sé ekki við hæfi að leiðtogar stjórnmálaflokkanna lýsi skoðun á forsetaframbjóðendum.

„Það er bara mín afstaða í þessum kosningum,“ segir hún.

Fyrri frétt mbl.is: Fullkomlega löglegar ráðstafanir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert