Senda auka kjörgögn til Frakklands

Leikmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla hefja leik í Frakklandi …
Leikmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla hefja leik í Frakklandi 14. júní gegn Portúgölum. mbl.is/Golli

Nú styttist óðum í tvo af þeim fjölmörgu viðburðum sem munu einkenna sumarið 2016: Evrópumótið í knattspyrnu og forsetakosningar. En munu þessir tveir viðburðir rekast á að einhverju leyti? Starfsmenn borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins mæla að minnsta kosti með því að fótboltaferðalangar geri upp hug sinn varðandi næsta forseta áður en haldið er utan. 

„Eðlilega gerum við ráð fyrir að þarna geti orðið meiri fjöldi en í venjulegum kosningum, þarna verður stærra íslenskt samfélag á meðan keppninni stendur,“ segir Jóhann Jóhannsson, yfirmaður borgaraþjónustu hjá utanríkisráðneytinu í samtali við mbl.is.

Mikill fjöldi Íslendinga mun leggja leið sína á Evrópumótið í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi í sumar. Forsetakosningar fara fram um svipað leyti á Íslandi. Fyrsti leikur Íslands er 14. júní og síðasti leikurinn í riðlinum fer fram 22. júní. Þremur dögum síðar, 25. júní ganga Íslendingar til kosninga.

Alls sóttu 26.985 Íslendingar um miða á leiki Íslands, eða 8,15% þjóðarinnar, svo ljóst er að mikill fjöldi verður í Frakklandi á þessum tíma. „Við erum meðvituð um að þarna verður stærra samfélag Íslendinga en á venjulegu sumri og við reynum að vera undir það búin,“ segir Jóhann.

Ekki settir upp sérstakir kjörstaðir

Fleiri kjörgögn en ella verða send til Frakkland og gerir Jóhann ráð fyrir að fleira aðstoðarfólk verði sendiráðinu innan handar en áður hefur verið. „Það verða þó ekki settir upp sérstakir kjörstaðir og kjörfundir.“ Það verður því ekki hægt að kaupa sér stuðningsmannatreyju og kjósa forseta í sama básnum.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis fer fram hjá sendiráðum Íslands, fastanefndum Íslands hjá alþjóðastofnunum og ræðismönnum Íslands samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Í Frakklandi verður hægt að kjósa á átta stöðum, meðal annars í París og Marseille, þar sem tveir leikir Íslands fara fram.

Jóhann hvetur ferðalanga hins vegar til að kjósa á Íslandi. „Vitanlega viljum við hvetja alla til að kjósa áður en haldið er utan. Það er léttara fyrr alla,“ segir Jóhann.

París er ein þeirra átta borga í Frakklandi þar sem …
París er ein þeirra átta borga í Frakklandi þar sem hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar í forsetakosningunum sem fram fara í júní. AFP

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna forsetakosninganna hófst 30. apríl síðastliðinn, átta vikum fyrir kjördag, svo það er lítið mál fyrir kjósendur að greiða atkvæði sitt, að því gefnu að þeir séu búnir að gera upp hug sinn.  

Atkvæðagreiðsla fer fyrst um sinn fram hjá sýslumönnum um land allt á skrifstofum eða útibúum þeirra á auglýstum afgreiðslutíma. Frá og með 9. júní verður atkvæðagreiðslan í Perlunni í Öskjuhlíð.

Hér má finna nánari upplýsingar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hjá sýslumanni. 

Hér má finna nánari upplýsingar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis. 

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir forsetakosningarnar fer fram í Perlunni frá …
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir forsetakosningarnar fer fram í Perlunni frá 9. júní. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert