Fráleitt að tala um lögbrot

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi.
Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru tvö ár til kosninga. Við breytum ekki þessum ársreikningi. Við þurfum að þrauka fram á vorið 2018 og kjósa þá sem geta tekið á þessum rekstarmálum,“ sagði Halldór Halldórsson, oddiviti Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi fyrr í dag.

Þar fer fram síðari umræða um ársreikning Reykjavíkurborgar.

Halldór ræddi endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársreikninga, rétt eins og hann gerði þegar fyrri umræðan var haldin, og ítrekaði að miðað við skýrsluna gæti áframhaldandi taprekstur borgarinnar verið brot á lögum. Í skýrslunni er vakin athygli á því að samkvæmt sveitarstjórnarlögum er ekki heimilt að samanlögð heildarútgjöld séu á hverju þriggja ára tímabili hærri en nemur samanlögðum tekjum.

Frétt mbl.is: Hallrekstur borgarinnar lögbrot

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, vísaði orðum Halldórs frá fyrri umræðunni á bug í dag og sagði fráleitt að tala um lögbrot í þessu samhengi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

Skoraði á minnihlutann

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári er töluvert frábrugðin áætlun borgarinnar. Munurinn nemur um tólf milljörðum króna. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa fimm milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða króna afgangi.

Meginástæðan er hækkun á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem nema 14,6 milljörðum króna.

Frétt mbl.is: Lífeyrisskuldbindingar stálu senunni

„Ég skora á talsmenn minnihlutans að færa rök fyrir því að 14 milljarða lífeyrisskuldbindingin hefði einhvern tímann verið öðruvísi færð ef minnihlutinn hefði verið hér við völd,“ sagði Dagur.

S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar.
S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar. mbl.is/Haraldur

„Popúlískur undirtónn“

Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, steig í pontu og gagnrýndi umfjöllun Halldórs um stöðugildi í Reykjavíkurborg. Sagðist Björn ekki átta sig á því hvort sjálfstæðismenn vilji að sagt verði upp fólki í borginni eða ekki. „Þetta er popúlískur undirtónn sem er alls ekki traustvekjandi. Það þarf að fá botn í hver er raunverulegur vilji borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að þróun stöðugilda,“ sagði Björn. „Það er ósamræmi í málflutningi annars vegar og gjörða hins vegar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert