Magnús Ingberg gefur kost á sér til forseta

Magnús Ingberg Jónsson gefur kost á sér til embættis forseta.
Magnús Ingberg Jónsson gefur kost á sér til embættis forseta. Ljósmynd/ Úr einkasafni

Magnús Ingberg Jónsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Magnús Ingberg er 46 ára og fiskvinnslufræðingur að mennt, en starfar í dag sem verktaki. Hann er ættaður frá Svínavatni og er giftur Silju Dröfn Sæmundsdóttur og þau búa á Selfossi.

Magnús Ingberg segir í viðtali við mbl.is að helsta ástæða framboðs síns sé sú að hann vilji afnema verðtrygginguna. „Ég vill sjá verðtrygginguna fara og ég við að við séum með forseta sem gefur upp skoðanir sínar,“ sagði Magnús Ingberg.

Spurður hvort hann telji þessar áherslur heyra undir forsetaembættið svarar Magnús Ingberg:  „Það er þannig að forsetinn er framlenging á valdi þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni. Hann sækir vald sitt til hennar og ef þingið er ófært um að koma einhverju í gegn sem að þjóðin vill breyta þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að forsetinn beiti sér fyrir almenning.“ Sitt mat sé að mikill meirihluti sé fyrir því hjá almenningi að afnema verðtrygginguna, en málið stoppi hjá þinginu.

Skammur tími er þar til framboðsfrestur rennur út, en Magnús Ingberg er ágætlega bjartsýnn á að ná tilskyldum fjölda undirskrifta fyrir þann tíma.

„Ef fólk vill fá mig þá gengur þá getur þetta alveg gengið upp. Landslagið er svolítið breytt eftir að Ólafur hætti,“ segir Magnús Ingberg og kveðst ekki hafa farið í framboð ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði áfram gefið kost á sér.  

Magnús Ingberg telur upp helstu stefnumál sín í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum:

  1. „Verðtryggingu verður að afnema og vil ég að þjóðin fái að ákveða það í næstu alþingiskosningum ef alþingi er ekki fært um það.
  2. Húsnæðislán verði einungis með veð í eigninni og þá í prósentum (dæmi: 80% lán = aldrei meira en 80% veðsetning).
  3. Ég er ekki hlynntur inngöngu í ESB, en mun virða skoðun þjóðarinnar sé hún gagnstæð minni.
  4. Ég virði stjórnarskránna, þar sem hún er vel skrifuð.
  5. Þjóðin skal fá að taka ákvarðanir í umdeildum málum.
  6. Bæta þarf heilbrigðisþjónustuna út á landi og standa vörð um sjúkraflugið og bættar samgöngur.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert