Ekki krafa um 700 þúsund

Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hafa átt í kjaraviðræðum.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hafa átt í kjaraviðræðum.

„Flugstjórar eru okkar viðmiðunarstétt en eins og staðan er í dag erum við töluvert langt á eftir þeim,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, um kjaraviðræður félagsins við Isavia.

Samkvæmt kjarasamningi flugstjóra frá árinu 2014 eru föst laun þeirra tæplega 700 þúsund krónur eftir eitt ár í starfi og fara svo stighækkandi upp í  rúma eina milljón eftir fimmtán ára starf. Inni í þeim tölum eru ekki laun vegna yfirvinnu og dagpeningar.

Vilja ekki dragast aftur úr

„Við gerum ekki kröfu um að byrjunarlaunin séu 700 þúsund en við viljum miða okkur við þá og ekki dragast aftur úr þeim,“ segir Sigurjón. „Við erum með sambærilega launatöflu á við þá í uppbyggingu en okkar er töluvert lægri eins og staðan er í dag.“

Yfirvinnubann félagsins hefur staðið yfir frá 6. apríl síðastliðinn og þjálfunarbann var sett á 6. maí. Félagsdómur á enn eftir að úrskurða um lögmæti síðarnefnda bannsins.

Vilja leiðréttingu og hækkanir

„Við erum að koma út úr fimm ára kjarasamningum. Við gerðum langan samning síðast og höfum dregist töluvert aftur út. Við gerum kröfu um að það verði leiðrétt og svo semjum við um eðlilegar hækkanir í framhaldi af því,“ segir Sigurjón en 125 manns eru í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.

Spurður hversu langur kjarasamningur hefur verið ræddur segir hann að félagið sé opið fyrir öllu, allt frá samningi sem gildi fram að næstu áramótum og upp í fjögur ár.

Næsti fundur í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hefur verið boðaður á föstudaginn í næstu viku.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ljósmynd/Aðalsteinn Leifsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert