Rúmur helmingur á móti inngöngu

AFP

Meirihluti aðspurðra, sem tóku afstöðu í nýrri könnun MMR, er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Yfir helmingur svarenda, eða 51,4%, sagðist andvígur eða mjög andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Rétt rúmur fjórðungur, eða 27,1% svarenda, sagðist hlynntur eða mjög hlynntur því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Í tilkynningu MMR segir að niðurstöðurnar bendi til þess að litlar breytingar hafi verið á afstöðu almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB undanfarin tvö ár. Sé hinsvegar litið til samanburðar alveg til ársins 2012 hefur andvígum fækkað um rúmlega 10 prósentustig síðan seinnihluta ársins 2012 þegar milli 60 og 65% Íslendinga kváðust andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Á sama tímabili hefur hlynntum fjölgað um allt að 10 prósentustig.

Þegar afstaða almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB er skoðuð eftir samfélagshópum kemur í ljós að fólk sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu er mun hlynntara inngöngu Íslands í ESB heldur en fólk sem býr á landsbyggðinni. Eldri aldurshópar og konur eru einnig líklegri til að vera andvíg inngöngu í ESB heldur en karlar og þau sem yngri eru. Þau sem búa á tekjuhærri heimilum virðast einnig vera líklegri til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB. 
Langflest þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru andvíg inngöngu Íslands í ESB, en meðal þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina eru ívið fleiri sem eru hlynnt inngöngu Íslands í ESB.

Þá er stuðningsfólk Framsóknar og Sjálfstæðisflokks mun líklegra til að vera andvígt inngöngu Íslands í ESB, en flestir stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru hlynntir inngöngu í ESB. Meðal stuðningsmanna Pírata er meirihluti hlynntur inngöngu Íslands í ESB, en jafnari dreifing er á afstöðu stuðningsmanna Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Könnunin var framkvæmd dagana 6. til 9. maí og svöruðu 947 einstaklingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert