Fjölbreyttur Tæknidagur í HR

Fjögur verkefni voru tilnefnd til Guðfinnuverðlaunanna á Tæknidegi HR í gær upp úr áfanganum „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“, sem hefur staðið yfir í Háskólanum í Reykjavík undanfarnar þrjár vikur. Um 300 nemendur á fyrsta ári eru í áfanganum og var þeim skipt í 54 hópa, sem hafa einbeitt sér að margvíslegum verkefnum.

Verkefnin fjögur voru Quicksaver - búnaður sem skynjar veltur og högg á bíl og sendir neyðarboð á neyðarlínuna ef bíll lendir í árekstri eða veltu, Eftirhyggjubókin - app til að fylgjast með einkennum og líðan sjúklinga og auðvelda samskipti milli lækna og sjúklinga, Sonar Drone - drónar sem leita að nákvæmri staðsetningu fiskimiða og spara þannig útgerðum tíma og kostnað og DontDrive&Die – app sem ætlað er að draga úr snjallsímanotkun við akstur, með því að læsa símanum þegar ferðast er á meira en 10 km/klst hraða, en það hlaut sérstök verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð. Úrslit keppninnar verða kynnt í haust.

Ástrós Eir Kristinsdóttir, einn fulltrúa Quicksaver, kynnti hugmyndir hópsins fyrir Morgunblaðinu í gær. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að kveikjan á verkefninu hafi verið bílslys þar sem ökumaður úti á landi þurfti að bíða í sólarhring í bílnum sínum eftir hjálp vegna þess að hann gat ekki látið vita hvar hann var. Úr hafi orðið að hópurinn hannaði búnað skynji styrk höggs og hvort bíllinn hafi oltið eða ekki. Í kjölfarið sendi hann upplýsingarnar ásamt staðsetningu á Neyðarlínuna, sem geti svo brugðist við. Óski ökumaður ekki eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíl hefur hann 30 sekúndur eftir slysið til þess að slökkva á búnaðinum og þá verða engin skilaboð send.

Nemendurnir hafa kynnt hugmyndina fyrir fjárfestum, starfsmönnum hjá lögreglu og sjúkraflutningamönnum og hafa fengið jákvæð viðbrögð, að sögn Ástrósar. Hún segir enn fremur að verði hugmyndin að veruleika sé stefnt að fjöldaframleiðslu á búnaðinum í Kína.

„Sambærilegur búnaður verður staðalbúnaður í bílum framtíðarinnar, en þá er aðeins talað um búnað með GSM-sambandi en ekki með PLB-sendi. Búnaðurinn í bílum framtíðarinnar hringir sjálfkrafa í Neyðarlínuna án þess að senda upplýsingar um kraft höggsins eða hvort bíllinn hafi oltið eins og búnaðurinn okkar mun gera,“ sagði Ástrós.

Skoða má myndir frá Tæknideginum með því að fletta þeim hér að ofan en auk kynninga úr nýsköpunaráfanganum gafst gestum tækifæri til að kynna sér fjölbreytt verkefni sem nemendur í tæknifræði og verkfræði við Háskólann í Reykjavík hafa unnið í verklegum og hagnýtum námskeiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert