Húsnæðislausn fyrir ungt fólk

Hallgrímur Óskarsson kynnir Strax í skjól.
Hallgrímur Óskarsson kynnir Strax í skjól.

Strax í skjól er húsnæðislausn fyrir fólk ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Hallgrímur Óskarsson verkfræðingur hefur unnið að verkefninu frá áramótum en í lausninni felst að fyrirframgreiddur skyldulífeyrir er notaður sem eigið fé til útborgunar í fyrstu íbúð.

Lausnin var fyrst kynnt fyrir nokkrum dögum en hefur tekið nokkrum breytingum eftir að hagsmunaðilar kynntu sér hana. „Það er búið að kynna hana fyrir ungu fólki, lífeyrissjóðunum og svo alþingismönnum og það hafa allir tekið afar vel í hana. Þetta er vel framkvæmanleg lausn ef hagsmunaaðilar sameinast um að gera hana að veruleika.“

Hallgrímur segir þörfina á lausn fyrir ungt fólk í húsnæðismálum alltaf verða meiri og meiri sérstaklega þar sem húsnæðisverð hafi hækkað mikið, leigumarkaðurinn orðið dýrari sem og samkeppni um leiguna meiri þar sem mikið er um ferðamannaleigu. „Þessar aðstæður eru afar óvinveittar ungu fólki og sú útborgun sem það þarf að eiga til þess að geta keypt sér íbúð er allt í einu orðin svo há að það eru afar fáir sem kljúfa hana.“ 

Ungt fólk kemst strax í eigið húsnæði 

Hann segir lausnina hagstæða fyrir lífeyrissjóði og lántakendur og einungis þurfi að gera litlar breytingar á löggjöfinni svo að unnt sé að hefjast handa. „Það þarf að breyta orðalagi í 36. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða því þar er rammi um ákveðin hámörk sem lífeyrissjóðir mega fjárfesta í húsnæði.“ Þá hafa nokkrir alþingsmenn haft samband við Hallgrím og eru áhugsamir um að keyra lausnina í gegnum þingið fyrir haustið.

Hallgrímur segir ávinning lausnarinnar þann að ungt fólk komist strax í eigið húsnæði, húsnæðið sé skuldlaust við starfslok, fólk hafi sömu ráðstöfunartekjur við starfslok, ríki og sveitarfélög þurfi ekki að gefa eftir skatttekjur og að samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóða aukist í leiðinni.

Lausnin er sambland af þeim leiðum sem reynst hafa best síðustu 50 ár í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og víðar en er svo aðlöguð að því lífeyrissjóðakerfi sem var fyrir á Íslandi. „Þetta er svona hálfevrópsk og hálfíslensk lausn.“ Hallgrímur segir að næst á dagskrá sé að koma lausninni í gegnum Alþingi og vonar að hún geti orðið að veruleika með haustinu. „Þetta mun breyta mjög miklu á leigumarkaði. Það mun vera margt fólk sem fer af leigumarkaði og nær að kaupa sér eignir.“

Lífeyrissjóðirnir útfæra lausnina 

Aðspurður hvort lausnin muni leiða til hækkunar á fasteignaverði segir Hallgrímur að það gæti gerst verði lausnin opin fyrir alla og framkvæmd án umhugsunar. „En í tillögunum kemur fram að auðvelt sé að koma í veg fyrir verðbólgu og hækkun á fasteignaverði með því að byrja á því að bjóða lausnina aðeins til ákveðins hóps sem þarf mest á henni að halda og setja skorður um að hún gildi aðeins fyrir ákveðinn verðflokk af húsnæði.“ Hann segir að síðan sé hægt að taka þetta í skrefum og í rauninni geti hver og einn lífeyrissjóður sniðið lausnina að sínum þörfum. Lífeyrissjóðirnir geta útfært lausnina í smáatriðum eins og hentar hverjum sjóði, útlánagetu, fjölda lántakenda og öðrum þeim atriðum sem skipta sjóðina máli.

„Nú þarf bara góða umræðu um málið og sjá hvort það sé ekki hægt að sameinast um þessa lausn. Því hún kemur frá óháðum aðila sem hefur þann eina vilja að þetta ástand á þessum markaði verði aðeins skárra.“

Frétt mbl.is - Allir eigi skuldlaust húsnæði  

Í lausninni felst að fyrirframgreiddur skyldulífeyrir er notaður sem eigið …
Í lausninni felst að fyrirframgreiddur skyldulífeyrir er notaður sem eigið fé til útborgunar í fyrstu íbúð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert