Hættur við Bessastaði, vill á þing

Magnús Ingi Magnússon.
Magnús Ingi Magnússon.

Magnús Ingi Magnús­son, veit­ingamaður, hefur dregið framboð sitt til embættis forseta Íslands til baka. Hann segir frá þessu á Facebook síðu sinni og segist jafnframt vera tilbúinn að sitja á Alþingi.

Magnús segir á Facebook ljóst að hann muni ekki ná tilskildum fjölda meðmælanda og að nokkuð vanti upp á, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. „Þess vegna hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ skrifar Magnús. „Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími og góð reynsla. Ég hef hitt marga og fengið jákvæðar undirtektir.“

Segist hann jafnframt vera þakklátur þeim fjölda sem skrifaði undir meðmælalista hans.

Í öllum þessum framboðsmálum fór ég að pæla: af hverju ekki Magnús Ingi á Þingi? Nú styttist í alþingiskosningar og ég hef heilmargt fram að færa,“ skrifar Magnús og birtir lista yfir stefnumál sín sem eru meðal annars að öll list, trú og fiskur eigi að fara á markað, betri heilsugæslu og heilbrigðiskerfi með einkarekstur að hluta, nýja stjórnarskrá og færri embættismenn meðal annars.

„Ef það er stjórnmálaafl á Íslandi sem vill vinna að þessu málum, þá er ég tilbúinn í samstarf,“ skrifar Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert