Leita týndra sjóða foreldra sinna

Ingvar Helgason flutti m.a. inn bíla
Ingvar Helgason flutti m.a. inn bíla mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Erfingjar hjónanna Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur ætla að fá erlent rannsóknarfyrirtæki til að leita að týndum sjóðum foreldra sinna erlendis. Gerðu þau sér grein fyrir því að Júlíus Vífill Ingvarsson, einn erfinginn og fyrrverandi borgarfulltrúi, gæti tengst málinu eftir að upplýsingar úr Panama-skjölunum um stofnun aflandsfélags hans komu fram í Kastljósi í síðasta mánuði. Setti það málið í nýtt ljós að mati systkina hans en fjallað verður um málð í Kastljósinu í kvöld.

Ingvar Helgason féll frá árið 1999 en þá höfðu honum og eiginkonu hans, Sigríði Guðmundsdóttur, tekist að byggja upp eitt stærsta fyrirtæki landsins á starfsævinni.  

Því kom það mörgum á óvart að þegar að tvö fyrirtæki hans voru seld úr höndum erfingja hans og eiginkonu fyrir aðeins nokkrar milljónir króna, fimm árum eftir að Ingvar lést. Staðan var þá sú að salan var liður í því að forða fyrirtækjunum frá gjaldþroti.

Svo virðist sem systkini Júlíusar Vífils gruni að hann tengist eitthvað þessum týndu sjóðum sem er nú leitað.  

„Svo þegar þetta kemur í Kastljósinu með Júlíus Vífil að hann hefði átt peninga þarna úti þá vissi maður hvað þetta var. Þetta voru þá lífeyrissjóðir foreldra okkar sem þau voru að díla við,“ má heyra  Guðrúnu Ingvarsdóttir, dóttir Ingvars og Sigríðar og systir Júlíusar Vífils segja í broti úr þættinum sem hægt er að horfa á á vef RÚV.

Erfingjar þeirra Ingvars og Sigríðar deila nú vegna skipta dánarbúsins. Deiluefnið snýr að þeim eignum sem meirihluti erfingjana telja að vanti í dánarbúið, varasjóður Ingvars sem hann á að hafa safnað á reikninga í erlendum banka. Eiginkona hans reyndi árangurslaust að finna þá reikninga eftir andlát Ingvars.

Telja erfingjarnir að um hafi verið að ræða nokkur hundruð milljónir króna á þeim tíma sem Ingvar lést. Upphæðin væri því vel á annan milljarð króna hið minnsta í dag.

mbl.is hefur ekki náð tali af Júlíusi Vífli vegna málsins.

Júlíus Vífill fyrrverandi borgarfulltrúi
Júlíus Vífill fyrrverandi borgarfulltrúi mbl./Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert