Reif járnið af þakinu

Slökkvilið að störfum í nótt.
Slökkvilið að störfum í nótt. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Svo virðist sem eldurinn sem kom upp á bifreiðaverkstæði við Fjölnisgötu 6 á Akureyri skömmu eftir miðnætti í nótt hafi kviknað þegar verið var að rafsjóða vélarhlíf á bíl á verkstæðinu. Einn maður var í húsinu og komst hann út heill á húfi. Fljótlega var ljóst að ekki væru fleiri í húsinu.

Sautján manns á vegum Slökkviliðs Akureyrar komu að slökkvistarfinu. Bílaverkstæðið og glerverkstæði í næsta bili í húsinu eru gjörónýt og rafeindaverkstæði og hobbíverkstæði í tveimur bilum til viðbótar eru illa farin.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar, var á bakvakt þegar eldurinn kviknaði í gær en allt tiltækt slökkvilið var kallað út. Hann segist í samtali við mbl.is hafa verið kominn á vettvang nokkrum mínútum eftir að þeir sem voru á vaktinni mættu.

„Það var eldur í einu bili og það var alveg ljóst um leið og við komum á staðinn að það var alelda. Það var þykkur, svartur mökkur sem steig upp frá húsinu og það leyndi sér ekki hvar þetta var. Við gerðum okkur strax grein fyrir því að við værum ekki að fara að ráða við þetta með tanknum einum saman svo við fórum strax í að leggja hana og tryggja vatnsöflum og réðumst svo á þetta,“ segir Ólafur.

Gríðarleg verðmæti í húsinu

„Aðalvandamálið varð fljótlega eldur í þakrými og undir þakplötum. Það var að berast á milli eldhólfanna þar, eða stefndi í að eldurinn myndi berast eftir þakplötunum. Við gripum til þess ráðs að fá til liðs við okkur mann með kranabíl og skóflu. Hann fór í það að rífa járnið af þakinu þannig að við kæmumst að eldinum sem hljóp undir þakplötunum.

Ég held að með þeim hætti höfum við náð að bjarga þessu, sérstaklega nýbyggingunni vestan við en það var að byggjast upp mikill reykur og hiti þar inni. Það stefndi í að verða alelda mjög fljótt en við náðum að afstýra því með því að rjúfa þakið,“ segir Ólafur.

Í einu af fyrirtækjunum í húsinu hefur verið mikil uppbygging að undanförnu en unnið hefur verið að því að byggja við húsið og stækka það.

„Þeim aðgerðum var ekki lokið en þær voru langt komnar. Það voru gríðarleg verðmæti þar inni. Þar urðu ekki eldskemmdir en það fór töluverður reykur þar inn. Við þurftum að rjúfa þakið og við það fór vatn inn. Eigendur og starfsmenn voru í alla nótt að reyna að koma í veg fyrir tjón með því að breiða yfir tölvur og dýr tæki,“ segir Ólafur.

Vakt slökkviliðs lauk á sjöunda tímanum í morgun og var lögreglu þá afhentur vettvangurinn.

Frétt mbl.is: Eldur í verkstæði á Akureyri

Myndin, sem tekin var í morgun, sýnir skemmdirnar sem urðu …
Myndin, sem tekin var í morgun, sýnir skemmdirnar sem urðu í brunanum í nótt. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
Frá vettvangi í nótt. Rífa þurfti þakið af húsinu.
Frá vettvangi í nótt. Rífa þurfti þakið af húsinu. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert