Aðalfundur Samtakanna´78 ólögmætur

Deilt hefur verið um aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum …
Deilt hefur verið um aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum 78. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Aðalfundur Samtakanna´78 frá því í byrjun marsmánaðar, þar sem samþykkt var að veita BDSM á Ísland aðild að félaginu, var ólögmætur og verður stjórn samtakanna að boða til nýs fundar án tafar. Þetta er niðurstaða lögfræðiálits sem unnið var fyrir Velunnara Samtakanna ´78. Þeir hafa lagst gegn aðild BDSM að samtökunum.

Frosti Jónsson, sem er í forsvari fyrir velunnarana, segir að aldrei í tuttugu ára sögu samtakanna hafi eins margir sagt sig úr þeim. „Þetta er stærsti og alvarlegasti klofningur í samtökunum í tuttugu ára sögu þeirra,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðalfundurinn fór fram 5. mars síðastliðinn. Frosti segir að lögmæti hans hafi nú tvisvar verið vefengt, fyrst með lögfræðiáliti sem lögmaður stjórnar samtakanna vann og nú með lögfræðiáliti sem velunnararnir létu gera. „Okkar krafa gengur fyrst og fremst út á að það verði boðað til aðalfundar í samræmi við lög,“ segir Frosti.

Hann bætir við að samhliða lögfræðiálitinu hafi á miðvikudaginn verið lagður fram undirskriftalisti með nöfnum 128 manns sem voru lögmætir félagar samtakanna, með atkvæðisrétt, á aðalfundinum. Síðan þá hafi bæst við þennan lista. Er þess krafist að boðað verði til aðalfundar. „Það er um þriðjungur lögmætra félagsmanna sem hefur skrifað undir listann. Þetta er töluvert stór hópur sem skorar á stjórn að boða til fundar og afgreiða þau mál sem þar lágu fyrir samkvæmt lögum félagsins. Lögin eiga að gæta réttar félagsmanna og því er mikilvægt að eftir þeim sé farið. Þegar lögmæti aðalfundarins hefur verið vefengt tvisvar liggur í augum uppi að eina rétta leiðin er að boða til nýs aðalfundar.“

Meðal þeirra sem hafa skrifað undir áskorunina til stjórnar eru nokkrir fyrrverandi formenn félagsins og fjöldi fyrrverandi stjórnarmanna.

Ákvarðanir séu hafnar yfir vafa

Frosti bætir við að brýnt sé, í öllum málum sem fjallað er um á vettvangi samtakanna, sér í lagi þegar um viðkvæm mál er að ræða, eins og kosningin um aðild BDSM-samtakanna, að allar ákvarðanir séu hafnar yfir vafa og að stjórn hafi fullt umboð félagsmanna. „Eins og staðan er núna hefur aðalfundurinn verið vefengdur og þar af leiðandi eru þær ákvarðanir sem kosið var um á aðalfundi ekki hafnar yfir þann vafa sem nauðsynlegt er.“

Í lögfræðiálitinu, sem unnið er af Ágústi Karli Karlssyni héraðsdómslögmanni, er komist að þeirri niðurstöðu, eins og áður sagði, að ákvörðun um aðild BDSM-samtakanna hafi verið ólögmæt. Þá þurfi jafnframt að breyta lögum samtakanna til þess að starfsemi BDSM-samtakanna rúmist innan markmiða Samtakanna ´78 eins og þau eru skilgreind í lögum samtakanna. Í samræmi við það verði stjórnin að boða til aðalfundar í samræmi við lög félagsins án frekari tafa.

Frétt mbl.is: Er pláss fyrir alla undir regnhlífinni?

Frosti Jónsson er í forsvari fyrir Velunnara Samtakanna 78.
Frosti Jónsson er í forsvari fyrir Velunnara Samtakanna 78.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert