Síðustu forvöð fyrir frambjóðendurna

Starfsmenn innanríkisráðuneytisins verða á vaktinni fram á kvöld til að …
Starfsmenn innanríkisráðuneytisins verða á vaktinni fram á kvöld til að taka á móti gögnum frá frambjóðendum á elleftu stundu. mbl.is/Eggert

Frestur til þess að skila inn meðmælendalistum og öðrum nauðsynlegum gögnum vegna forsetakosninganna rennur út á miðnætti í kvöld. Fundað verður með frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra á morgun þar sem kynnt verður hvaða framboð hafa borist en allt að viku getur tekið að fara yfir og staðfesta gögnin.

„Þegar því er lokið förum við með gögnin upp í Hæstarétt og auglýsum opinberlega hverjir eru rétt fram komnir sem frambjóðendur. Samkvæmt lögum um kjör forseta Íslands höfum við viku til þess en við reynum að gera það eins fljótt og hægt er í næstu viku,“ segir Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu.

Þannig mun það ekki liggja fyrir fyrr en í næstu viku hverjir verða formlega í framboði jafnvel þó að frambjóðendur skili meðmælendalistum og öðrum gögnum áður en frestur rennur út í nótt.

Munu ekki dunda við yfirferðina

Hitinn og þunginn af yfirferð listanna hefur þegar farið fram hjá kjörstjórnum um landið. Þær hafa þurft að bera saman listana sín á milli til að ganga úr skugga um að meðmælendur séu ekki á listum margra frambjóðenda og að þeir komi úr réttum landshlutum. Innanríkisráðuneytið fær vottorð frá yfirkjörstjórnum um að meðmælendalistarnir séu réttir. 

„Þetta mun ganga mjög hratt og vel fyrir sig ef þetta er allt hnökralaust. Ef það eru einhver vafaatriði þarf auðvitað að vinna með þau, kanna og ræða. Ég get engu um það svarað hvenær við klárum þetta en við munum ekkert dunda við þetta,“ segir Stefanía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert