Heimalningur sló í gegn á öldrunarheimili

Heimalningurinn sló í gegn.
Heimalningurinn sló í gegn. Mynd/Öldrunarheimili Akureyrar

„Maður sér sérstaklega á gömlum bændum að það kemur ákveðið blik í augun þegar þeir sjá dýr,“ segir Brynja Vignisdóttir, forstöðumaður öldrunarheimilisins Aspar- og Beykihlíðar á Akureyri, en í vikunni mætti einn starfsmaður með lítið lamb sem gladdi vistmenn mjög.

„Þetta var hugmynd starfsfólksins til að geta glatt nokkur hjörtu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta er gert í Hlíð. Í Lögmannshlíð [annað öldrunarheimili, innsk. blm.] hefur undanfarin þrjú eða fjögur ár verið lamb í girðingu í garðinum,“ segir Brynja.

„Starfsmaður okkar fékk til sín heimalning sem gat ekki verið hjá móður sinni. Hún spurði hvort hún mætti ekki koma með lambið í vinnuna. Lambið kom til okkar og dvaldist tvo dagsparta til að leyfa fólkinu hér aðeins að halda í gamla tíma og rifja upp gamla takta.“

Brynja segir viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. „Við vinnum hér samkvæmt hugmyndafræði um að fólk haldi áfram að lifa lífinu sínu þótt það sé komið inn á öldrunarheimili. Það er mikilvægt að fólk hafi áfram hlutverk og eitthvað að gera. Við erum í góðu samstarfi við öll skólastig bæjarins. Það koma oft unglingar inn til okkar og svo reynum við að vera mikið með plöntur og dýr hjá okkur,“ segir Brynja.

Lambið var að vonum ánægt með athyglina. Segir Brynja að svo vel hafi verið hugsað um lambið að það hafi verið orðið ansi frekt eftir að hafa dvalið á öldrunarheimilinu, enda orðið góðu vant.

„Gömlu bændunum finnst auðvitað svolítið skrýtið að vera með lömb svona innanbæjar. En þegar þeir sjá lömbin kviknar alltaf ákveðið líf í augum þeirra,“ segir Brynja að lokum.

Mynd/Öldrunarheimili Akureyrar
Mynd/Öldrunarheimili Akureyrar
Mynd/Öldrunarheimili Akureyrar
Mynd/Öldrunarheimili Akureyrar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert