Blessaði bæði dýr og menn

Við blessunina í dag.
Við blessunina í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta tókst mjög vel og var vel sótt. Það komu um 80 manns, 21 gæludýr, 18 hundar, einn köttur og tveir páfagaukar,“ segir Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur í Seltjarnarneskirkju, en þar fór í morgun fram gæludýrablessun. 

„Hugmyndin er gömul,“ segir Bjarni. „Ég var með gæludýramessu í Borgarholtsskóla þegar ég var prestur í Grafarvogskirkju árið 2004 og svo aftur nú.“

„Gæludýrablessun er viðhöfð víða um heim. Oftast er hún raunar haldin í byrjun október til að minnast heilags Frans frá Assisi. Hann tengist mjög dýrum og talaði meðal annars um dýrin sem bræður okkar og systur. Hann er sagður hafa predikað yfir fuglunum eins og frægt er.“

„Svo þegar menn fóru að minnast hans sérstaklega fór fólk að koma með gæludýrin sín í kirkjuna. Þannig byrjuðu nú þessar gæludýrablessanir,“ segir Bjarni.

Mynduðu gæludýraeigendurnir hring fyrir framan altarið með dýrunum sínum og svo blessaði Bjarni hvert og eitt dýr með nafni og fór með bæn.

„Ég bað guð um að blessa þau og eigendurna og þakkaði guði fyrir gæludýrin sem skipta svo miklu máli og veita okkur svo mikla skilyrðislausa ást.“

Þá var einnig frumfluttur nýr sálmur eftir sr. Kristján Val Ingólfsson vígslubiskup. Sálmurinn, sem ber nafnið Allt hið fagra foldarskart, átti vel við messuna í dag. 

Það var enskur sálmur hafður til hliðsjónar sem heitir All things bright and beautiful. Það er þekktur sálmur innan ensku kirkjunnar og fjallar hann um dýr og menn,“ segir Bjarni og bætir við að stefnt sé að því að gera gæludýrablessun að árlegum viðburði í Seltjarnarneskirkju.

Að messunni lokinni var svo boðið upp á veitingar fyrir bæði menn og dýr. „Það voru veitingar fyrir menn og málleysingja. Ég var með bæði hunda- og kattanammi. Það gekk mjög vel og þetta var mjög góð stund.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert