Fjórði fundurinn á þremur dögum

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis mun hittast klukkan 17 og fara yfir drög að áliti nefndarinnar um frum­varp fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um meðferð krónu­eigna sem háðar eru sér­stök­um tak­mörk­un­um.

„Nefndin hittist klukkan 17 og fer yfir drögin í sameiningu. Við eigum eftir að sjá hvernig það vinnst. Yfirleitt þegar farið er yfir svona á þessum fundum er farið í það að snurfusa álitið og slíkt,“ segir Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is. Hann gerir ráð fyrir því að fundur nefndarinnar í dag verði um klukkutími. „En þingfundur hefst ekki fyrr en klukkan 20 þannig að nefndin hefur drjúgan tíma til að fara vandlega yfir málið.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 1. varaformaður nefndarinnar, mun mæla fyrir nefndarálitinu á þinginu í kvöld. Frosti segir að þá geti vel verið að fleiri álit fái að heyrast í kvöld þar sem allir þingmenn hafi rétt á að taka til máls.

Frumvarpið var kynnt í þinginu á föstudaginn og eft­ir tæp­lega klukku­stund­arlang­ar umræður var það af­greitt til efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar. Frosti segir að störf nefndarinnar yfir helgina hafi gengið vel en fundurinn á eftir verður sá fjórði síðan á föstudaginn. Hann segir nefndina hafa gefið sér drjúgan tíma í málið og fengið til sín fjölda sérfræðinga og umsagnaraðila.

Þrjár umsagnir hafa borist nefndinni og á Frosti ekki von á fleirum. „En það getur að sjálfsögðu vel verið að nefndinni muni berast frekari upplýsingar frá hverjum sem er og tekur hún það inn í sína vinnu eftir atvikum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert