Lýsir yfir djúpri hryggð

Frá brautskráningu úr Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Frá brautskráningu úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ljósmynd/Kristján Kristjánsson

Kennarafélag Menntaskólans á Tröllaskaga hefur sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við kennara VMA. Rétt fyrir helgi sendi Kennarafélag VMA frá sér ályktun þar sem það mótmælti því að fjármálaráðuneytið hafi ekki greitt þeim rekstrarfé á þessu ári.

„Kennarafélag Menntaskólans á Tröllaskaga lýsir djúpri hryggð yfir því ástandi sem Kennarafélag Verkmenntaskólans á Akureyri segir ríkja í fjármálum þess skóla. Hann er í formlegu samstarfi við MTR ásamt MA og framhaldsskólunum á Laugum og Húsavík. Kennarafélag VMA segir að skólinn hafi búið við fjársvelti frá hruni, fjölmörg tæki til verklegrar kennslu séu úrelt, tölvur á síðasta snúningi og þar fram eftir götum. Svo sé komið að skólinn fái ekki lengur rekstrarfé frá fjármálaráðuneyti og sé nánast gjaldþrota," segir í stuðningsyfirlýsingunni. 

Frétt mbl.is: Verkmenntaskólanum mætt með þögn

„Ljóst má vera að vinnuaðstæður kennara við VMA, eins og þeir lýsa þeim, eru algerlega óboðlegar.  Ekki getur farið hjá því að ástandið bitni með alvarlegum hætti á námi nemendanna og allri þjónustu við þá. Kennarafélag MTR hvetur þingmenn og ráðherra, einkum fjár- og menntamála, til að skoða málið í þessu ljósi og finna á því lausn sem tryggi nemendum góðar aðstæður til fjölbreytts náms og kennurum og öðrum starfsmönnum boðlega vinnuaðstöðu," segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert