Ólafur Ólafsson var í þyrlunni

Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti fyrir austan fjall …
Þyrla Ólafs Ólafssonar eftir að hún brotlenti fyrir austan fjall í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, var um borð í þyrlunni sem brotlenti suður af Nesjavallavirkjun í kvöld en hann er einnig eigandi þyrlunnar, samkvæmt öruggum heimildum mbl.is.

Ólafur er því á meðal þeirra sem slösuðust en ekki er vitað hver meiðsl hans voru.

Ólafur Ólafsson var um borð í þyrlunni.
Ólafur Ólafsson var um borð í þyrlunni. mbl.is/Ómar

Allir fimm sem voru um borð í þyrlunni hafa verið í rannsóknum á bráðamóttöku Landspítalans, en þyrla Landhelgisgæslunnar lenti þar með fólkið.

Frétt mbl.is: Þyrlu hlekktist á á Landspítalanum

Frétt mbl.is: Allir í rannsóknum á bráðamóttöku 

Í tilkynningu frá stjórnstöð Landhelgisgæslunanr segir að tilkynning hafi borist í gegnum gervihnattatungl klukkan 19.45 í kvöld frá þyrlu sem var stödd á Hengilssvæðinu.

„Þá þegar voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út og var þyrla farin í loftið skömmu seinna. Stuttu eftir að neyðarboð hafði borist til Landhelgisgæslunnar náðu farþegar um borð í þyrlunni að hringja á Neyðarlínuna og gefa upp nákvæmari staðsetningu þyrlunnar og upplýsingar um ástand fólks um borð," segir í tilkynningunni. 

„Um 35 mínútum eftir að fyrsta neyðarboðið barst, eða um 20:20 var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar búin að finna þyrluna og rétt um tíu mínútum síðar hafði hún náð að taka alla farþegana fimm um borð. Var þá björgunarsveitum og slökkviliði snúið til baka. Flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með farþegana á sjúkrahús í Reykjavík. Önnur þyrla frá Landhelgisgæslunni mun verða rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglu til aðstoðar á vettvangi fram eftir kvöldi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert