Annar bruninn hjá HL Adventures

HL Adventures er staðsett við hliðina á Hraðbergi sem skemmdist …
HL Adventures er staðsett við hliðina á Hraðbergi sem skemmdist mikið í brunanum í nótt.

Jón Ólafur Magnússon, forstjóri HL Adventures, sem var í næsta húsi við lyftuþjónustuna Hraðberg í Vesturvör 30b þar sem eldur kom upp í nótt, segir miklar skemmdir á húsnæði ferðaþjónustunnar.  „Það er ekki hægt að vera þarna og ég held að það sé allt meira og minna ónýtt sem þar var,“ segir hann.  

Tekist hafi að bjarga út bílum og ýmsum tækjum sem séu í lagi fyrir utan reykjarlyktina. Fjárhagslegt tjón fyrirtækisins sé engu að síður gríðarlegt þar sem mikið af útivistarbúnaði hafi verið geymt í húsinu. „Við erum með mikið af tjöldum, svefnpokum, dúnsængum og öðru slíku dóti fyrir ferðamenn og við getum ekki boðið fólki að sofa í þeim búnaði eftir þetta.“

Eru með öll gögn á skýi eftir Lækjargötubrunann

HL Adventures kom með hóp ferðamanna í bæinn í gærkvöldi og á von á öðrum hópi síðar í dag og segir Jón Ólafur fyrirtækið ekki ætla að láta brunann hafa áhrif  þar á. „Við erum að setja upp tímabundna skrifstofuaðstöðu hjá skrifstofuhótelinu Orange í Ármúla,“ segir hann.

„Við erum svo óheppin að þetta er í annað skipti sem brennur hjá okkur. Við vorum líka í Lækjargötunni þegar brunninn varð þar og þá lærðum við að geyma öll okkar gögn í skýi. Við getum því unnið hvar sem er og þess vegna er starfsfólkið að vinna heima hjá sér í dag, en mætir svo á nýja skrifstofu í fyrramálið.“

Útivistarbúnaðurinn er þó ónýtur og segir Jón Ólafur nú unnið að því að panta nýjan búnað. „Við eigum fund með tryggingafélaginu klukkan eitt.“  

Ekki verði hins vegar nein starfsemi í Vesturvörinni næstu mánuði vegna skemmda af völdum reyks og elds. Þá fór rafmagn einnig af húsinu og eins var eitthvað um vatnstjón í vörugeymslunni, eldhúsi og baði. „Efri hæðin slapp hins vegar að mestu leyti.“

Jón Ólafur segir slökkviliðið strax hafa haft samband við HL Adventures þegar tilkynning barst um eld, en hann var ekki jafnsáttur við viðbragsflýtinn hjá Securitas. „Þeir hringdu ekki fyrr en eftir að starfsmaður okkar, sem býr í Grafarvogi, var kominn langleiðina úteftir. Síðan höfðu þeir aftur samband  um hálfníuleytið í morgun til að láta vita að það væri eitthvað athugavert við Vesturvör 30b,“ segir Jón Ólafur og kveðst eiga fund með þeim í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert