Flugvélin biluð á Akureyri

Jómfrúarferð Bombardier Q400-flugvélar Flugfélags Íslands – miðvikudagur 2. mars 2016 …
Jómfrúarferð Bombardier Q400-flugvélar Flugfélags Íslands – miðvikudagur 2. mars 2016 – farið í loftið í Reykjavík kl. 12.15 til Akureyrar, flugtími tilkynntur 35 mínútur – vélin lent á Akureyri – flugstjóri Jónas Jónasson, flugmaður Bryndís Torfadóttir, flugfreyjur Bryndís Harðardóttir og Helena Ísaksdóttir – meðal farþega var Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það kom upp bilun í vökvakerfi sem tengist skrúfunni. Það er verið að fá varahluti á staðinn og verður gert við það um leið og þeir liggja fyrir,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, en Bombardier-vél félagsins bilaði á Akureyri í dag.

Segir Árni að gera megi ráð fyrir því að flugvélin verði aftur komin í stand á morgun. Einhver röskun gæti orðið á flugi á morgun.

Er ekki um sömu vél að ræða og þá sem bilaði í þrígang í mars, heldur aðra vél sömu gerðar sem kom síðar til landsins. Er þetta í annað skiptið sem þessi tiltekna vél bilar. Árni segir að bilunin tengist þó tegundinni ekki. „Fólk tengir þetta við flugvélategundina en það er sami framleiðandi og býr til skrúfurnar fyrir Fokker-vélarnar. Þetta eru mismunandi bilanir sem geta komið upp og tengjast ýmsum kerfum í vélinni. Þetta hefði alveg eins getað komið upp í Fokker-vél,“ segir Árni.

Almennt séð segir Árni að nýju vélarnar hafi reynst Flugfélagi Íslands vel. „Það hafa verið nokkrar bilanir í byrjun. Þær eru hins vegar hraðfleygari en gömlu vélarnar og eldsneytisneyslan er að koma mjög vel út. Almennt séð eru þær að koma vel út,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert