FME láti í sér heyra

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kallaði eftir því í umræðum á Alþingi í dag að Fjármálaeftirlitið léti í sér heyra og færi yfir ítrekuð samkeppnisbrot greiðslukortafyrirtækisins Valitor sem framin voru í forstjóratíð Höskuldar H. Ólafssonar, núverandi bankastjóra Arion banka.

Þorsteinn sagði að fram kæmi í 2. mgr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar mættu ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt til að mynda almennum hegningarlögum og samkeppnislögum.

„En svo vill einmitt til að í einum viðskiptabanka þjóðarinnar situr framkvæmdastjóri en á hans tíma í öðru starfi 2008, 2013 og 2014 var lögð á það fyrirtæki stjórnvaldssekt fyrir að brjóta samkeppnislög ítrekað. Stjórnvaldssektirnar nema á annan milljarð króna,“ sagði Þorsteinn.

„Nú hlýtur maður að spyrja, vegna þess að viðskiptabankinn sem um ræðir ku vera í söluferli, hvort söluverð bankans gæti hugsanlega orðið fyrir tjóni af þessari staðreynd og hvort Fjármálaeftirlitið ætli virkilega ekki að láta í sér heyra,“ bætti hann við.

Hann nefndi jafnframt að nýlega hefði Fjármálaeftirlitið gefið út álit þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að verklag Landsbankans við sölu á hlut hans í Borgun hefði ekki að öllu leyti verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á fjármálamarkaði.

„Þetta er út af fyrir sig ágætisyfirlýsing. En það sem vakti athygli mína er að hún er gefin út 31. mars þetta ár, en salan fór fram í nóvember 2014.“ 

Honum væri ekki kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hefði með nokkrum hætti gert athugasemdir við þessa sölu fyrr en nú. Velti hann því fyrir sér hvaða hógværð þetta væri sem hrjáði eftirlitsstofnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert