„Góður undirbúningur fyrir sumarið“

Spáð er miklum vindi á Vesturlandi í kvöld og nótt.
Spáð er miklum vindi á Vesturlandi í kvöld og nótt. mbl.is/RAX

„Það blæs hressilega núna í alla nótt og svo fer að rigna með. Það koma skil yfir landið og það er rigning í þeim. Þetta verður hvass eða allhvass vindur,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Spáð er miklum vindi á Vesturlandi í nótt.

„Það verður því vindur og rigning í nótt en fyrir hádegi verður þetta gengið niður og skilin halda áfram austur á bóginn yfir landið en trosna þegar þau fara yfir landið. Það verður því lítið eftir af úrkomunni þegar skilin eru komin á Austurland,“ bætir Teitur við.

Segir hann að vindurinn fari smám saman að gefa eftir á morgun. 

„Hitinn verður um 8 – 12 stig á sunnan- og vestanverðu landinu en á Norðaustur- og Austurlandi fór hitinn á tveimur mælistöðum upp í tæp 18 stig í dag. Það verður aftur um 17 stiga hiti á morgun. Það er sunnanátt og hlýtt loft í grunninn en þar sem rigningin er og hvassviðrið, þar njóta menn þess ekki.“

Sjá veðurvef mbl.is

„Þessi svæði hafa verið með svalasta veðrið undanfarið en fá núna uppreist æru hvað hitastigið varðar. Það má kalla þetta hnjúkaþey, hlýr vindur af landi. Þannig er staðan á morgun,“ segir Teitur.

Á morgun fara vindurinn og rigningin minnkandi. „En svo er fyrirstöðuhæð austan megin við land sem stendur nokkuð þétt í lappirnar þannig að lægðirnar þurfa að troða sér vestan megin við landið um Grænlandssund. Þar eru þrengsli. Tvær lægðir fara þessa sömu leið, önnur þeirra á fimmtudaginn. Þá verður aftur stífur vindur og gæti slegið í storm staðbundið á fimmtudagsmorgun á Vestfjörðum alla leið austur á Akureyri. En loftið er áfram hlýtt og þar sem er ekki skýjað og væta þar verður hitinn góður. Það má ekki kalla þetta Mallorca-veður því það er svo hvasst norðan- og austanlands,“ segir Teitur.

Bráðnandi snjór er það sem sumarið þarf

Ekki má líta á stormasamt veður næstu daga sem bara neikvæðar fréttir að sögn Teits. Hefur veðrið það í för með sér að snjórinn á fjöllum fer minnkandi og hefur það áhrif á hitastigið síðar í sumar.

„Það er smá snjór enn þá á fjöllum og það heldur aftur af hitanum þegar svo stór hluti af landinu er undir snjó. Næstu daga munu sunnanáttir koma til með að taka mikið af snjó og greiða þar með leiðina fyrir almennilega sumarbyrjun.“

„Það verður að losa flatarmálið af snjónum svo hann sé ekki alltaf að kæla loftið sem leikur um landið. Sumarið hefst ekki almennilega fyrr en snjórinn er farinn. Júníbyrjun kemur ekki fyrr en í næstu viku og gengur þar með sumarið í garð. Við þurfum að vera undirbúin fyrir sumarið. Þessi vika er er góður undirbúningur fyrir sumarið.“

Gróðurinn þarf á vætu að halda

„Svo er fínt að vökva gróðurinn sunnan- og vestanhalds. Hann er að verða svolítið þurr og verður ekki almennilega grænn fyrr en væta kemur. Ég hugsa að margir bændur fagni þessari vætu, sérstaklega þeir sem eru búnir að bera á tún. Þá leysast næringarefnin upp og fara ofan í jarðveginn og leysa mikinn grasvöxt úr læðingi,“ segir Teitur.

Hann segir þessari stormahrinu ekki ljúka fyrr en um helgina.„ Þá gera spárnar ráð fyrir að þessu lægi. Þá tekur við aðgerðalítið veður. Hægur vindur og lítil úrkoma. Í mesta lagi skúrir frá sunnudegi fram á þriðjudag. Þá slaknar á öllu og allt verður rólegt,“ segir Teitur að lokum.

Ætli veðurguðirnir séu að undirbúa svona blíðu?
Ætli veðurguðirnir séu að undirbúa svona blíðu? mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert