Skipsfarmur af rusli frá Hornströndum

Fimmtíu og fimm saltpokar voru fylltir af alls konar rusli …
Fimmtíu og fimm saltpokar voru fylltir af alls konar rusli sem hafði skolað upp í fjörur Hornstrandar. Pokarnir voru fluttir með léttbátum á varðskipið Tý sem svo flutti ruslið á brott. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær og sjálfboðaliðar stóðu fyrir árlegri hreinsunarferð innan friðlandsins á Hornströndum um liðna helgi, en Landhelgisgæslan og áhöfnin á varðskipinu Tý aðstoðuðu við verkið. Rúmlega sex tonn af úrgangi voru flutt af svæðinu, en mestmegnis er um plast að ræða. Þetta er í þriðja skiptið sem farið er í leiðangur sem þennan, en samtals hafa um 18 kílómetrar af strandlengju verið hreinsaðir.

Jón Smári Jónsson, umsjónarmaður friðlandsins á Hornströndum, segir ferðir sem þessar mjög mikilvægar fyrir svæðið. Bæði sé þetta jákvætt fyrir sjónrænu áhrifin, en þá eyðist plast ekki, heldur veltist það um í flæðarmálinu og brotni í smærri einingar sem skili sér í lífríkið í formi örplasts. Áhrif af slíku séu mjög neikvæð og því sé mikilvægt að ná plastinu úr náttúrunni.

Siglt fyrir Hornbjargið.
Siglt fyrir Hornbjargið. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Fyrsta árið sem farið var í hreinsun sem þessa var farið á vestara svæðið og hreinsað upp í Hlöðuvík, Kjaransvík, Hornvík og Rekavík bak Horn. Annað árið var farið í Rekavík bak Látur og aftur í Hornvík og Rekavík bak Horn. Samtals voru hreinsaðir um átta kílómetrar í þessum tveimur ferðum og fimm tonn af rusli flutt burtu í hvort skipti.

Í ár var aftur á móti siglt í botn Hrafnsfjarðar inn af Jökuldölum og þaðan gengið yfir í Furufjörð sem er í austurhluta friðlandsins. Segir Jón að 26 sjálfboðaliðar hafi tekið þátt í hreinsuninni í ár og hafi þau náð að safna saman um sex tonnum af rusli, en aðallega var það Furufjörðurinn sem var hreinsaður.

Léttbátar fylltir af ruslapokum og fluttir á varðskipið.
Léttbátar fylltir af ruslapokum og fluttir á varðskipið. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Landhelgisgæslan kemur með varðskip til að flytja burt ruslið og léttbáta til að lesta stóra saltpoka sem ruslinu er safnað í frá fjörunni yfir í varðskipið.

Spurður hversu margar ferðir sem þetta þurfi að fara í áður en hreinsun svæðisins verði lokið segir Jón Smári að um eilífðarverkefni sé að ræða. Aftur á móti sjái hann fram á að á næstu fimm árum muni þau komast yfir stærsta kúfinn. Nefnir hann að stefnt sé að því að halda áfram norður af Furufirði á næstu árum, upp Bolungarvík á Ströndum og Smiðjuvík.

Jón Smári segir að mest af ruslinu sem sé safnað saman tengist sjávarútveginum. Það sé að mörgu leyti skiljanlegt þar sem þessari atvinnugrein muni alltaf fylgja einhver úrgangur, t.d. þegar net rifni o.s.frv. Leiðinlegast sé þó að sjá alls konar plastbrúsa og aðrar neysluumbúðir sem ættu alls ekki að vera í sjónum.

Mest er af alls konar rusli sem tengist sjávarútvegi, en …
Mest er af alls konar rusli sem tengist sjávarútvegi, en einnig er að finna plastbrúsa og aðra neysluvöru. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Í framhaldi af þessari hreinsun mun Umhverfisstofnun skrá magn rusls og gerðir þess í svokallaðan OSPAR-gagnagrunn, en Jón Smári segir að með því sé unnið að því að upprunarekja ruslið. Þetta sé vöktunarverkefni sem Umhverfisstofnun sé að byrja að sinna.

Hornstrandir eru einn einangraðasti staður landsins, en jafnframt einn viðkvæmasti staðurinn. Ferðatími á svæðinu er almennt miðaður við miðjan júní fram undir miðjan ágúst, en það fer allt eftir veðurfari og tíð á svæðinu.

Sjálfboðaliðarnir gerðu einnig fleira en að tína rusl um helgina.
Sjálfboðaliðarnir gerðu einnig fleira en að tína rusl um helgina. Ljósmynd/Umhverfisstofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert