Vilja aðgerðir gegn skattaskjólum

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórnvöld þurfa að grípa til fjölþættra aðgerða til þess að sporna við starfsemi skattaskjóla. Mikilvægt er að Ísland verði áfram virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi í þeim efnum og þarf landið að vera þar í fremstu röð. Enn fremur þarf að nýta tækifæri sem kunna að felast í lagabreytingum til þess að girða fyrir að íslenskir aðilar nýti sér leynd skattaskjóla.

Þetta er niðurstaða skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um skatta­skjól og mögu­leg­ar laga­breyt­ing­ar til að sporna við starf­semi þeirra. Farið er yfir vinnu nefndarinnar að undanförnu. Þar á meðal fundi sem hún hefur haldið og gesti sem komið hafa á þá fundi. Meðal annars frá embættum ríkisskattstjóra, skattrannsóknastjóra og Fjármálaeftirlitinu.

Skattaskjól veiki velferðarsamfélagið

„Skattaskjól eru lögsögur þar sem unnt er að stofna félög sem greiða lága eða jafnvel enga skatta auk þess sem stjórnvöld í þessum lögsögum afla oft lítilla eða engra upplýsinga um rekstur og eignarhald félaganna. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu sem þeir geta nýtt til að komast hjá skattlagningu í heimalandinu,“ segir meðal annars í skýrslu nefndarinnar.

Bent er á að skattheimta sé forsenda þess að stjórnvöld geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veiki því velferðarsamfélagið um leið og þau auki á ójöfnuð þar sem skattundanskot leiði til þyngri skatta á þá sem standa í skilum og velferðarkerfið veikist.

Samræmt fjölþjóðlegt átak getur að lokum skilað verulegum árangri en það getur tekið mörg ár að ná settu marki. Til að bregðast hraðar við vandanum er því nauðsynlegt að kanna hvaða aðgerðir og lagabreytingar hér á landi geta skilað árangri.“

Margvíslegar tillögur að lagabreytingum

Birt er samantekt á ábendingum sem komið hafi frá gestum nefndarinnar um mögulegar lagabreytingar til þess að sporna við því að íslenskir aðilar leiti í skattaskjól. Þær ganga meðal annars út á að heimild verði rýmkuð til að áætla tekjur séu fullnægjandi gögn ekki lögð fram, refsiákvæði ef fullnægjandi gögn eru ekki lögð fram, að fyrningartími endurákvörðunar skatta verði lengdur og refsiákvæði vegna ráðgjafarþjónustu.

Sömuleiðis að lagaákvæði um skattasniðgöngu verði styrkt, skattur lagður á vexti sem greiðast úr landi, strangari reglur verði settar um eignarhald á aflandsfélögum, tvísköttunarsamningar verði endurskoðaðir, krafa verði gerð um að upplýst verði um endanlega eigendur í hlutaskrá, aflandsfélög verði almennt ekki talin sjálfstæðir skattaðilar og að ráðgjöf um skattaskjól verði upplýsingaskyld eða ólögleg.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert